Innlent

Mikill meirihluti landsmanna hlynntur veiðum á langreyðum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Tæp sextíu prósent þjóðarinnar eru frekar eða mjög hlynnt veiðum á langreyðum.  Átján prósent eru andvíg veiðunum. Mestur er stuðningurinn meðal fylgismanna Sjálfstæðisflokksins eða tæp sjötíu og fimm prósent.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem unnin var fyrir Stöð 2 og Fréttablaðið dagana 26. til 27. júní. Alls voru 802 spurðir um viðhorf til veiða á langreyðum.

Jafn margir sögðust vera frekar eða mjög hlynntir veiðunum eða 60 prósent. Frekar eða mjög andvígir voru 9 prósent. Hlutlausir 24 prósent.

Að sama skapi er nokkur munur eftir búsetu. Þannig er rúmur helmingur borgarbúa hlynntur veiðunum en 21 prósent frekar eða mjög andvíg. Stuðningur við veiðar á langreyðum mældist 68 prósent á landsbyggðinni, á meðan 13 prósent voru andvíg.

Frá Hvalfirði.MYND/GETTY
Þá eru lítill munur á viðhorfi eftir aldri. 54 prósent eru hlynnt veiðunum meðal fólks 18 til 49 ára, og 61 prósent hjá 50 ára og eldri.

Þegar litið er á viðhorf til veiða út frá pólitískri afstöðu kemur í ljós að stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar eru almennt séð hlynntir veiðum á langreyðum, það er, 72 prósent Framsóknarmanna og 73 prósent Sjálfstæðismanna.

39 prósent Samfylkingarmanna eru hlynntir veiðunum á meðan 32 prósent eru andvíg. Hið sama er upp á teningnum hjá Vinstri-grænum, eða 40 prósent hlynntir og 36 prósent andvíg.

Þá er helmingur stuðningsmanna Pírata hlynntur veiðunum en 24 prósent andvíg. Hjá Bjartri framtíð mælist stuðningurinn 33 prósent á meðan andvígir eru 30 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×