Innlent

Mikil spenna á Norðurlandi - grannt fylgst með

Kristján Már Unnarsson skrifar
Veðurstofan varaði við því í dag að hætta væri á stórum jarðskjálfta á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Jarðskorpumælingar benda til að nægileg spenna sé til staðar fyrir skjálfta upp á 6,8 stig.

Skjálftahrinan sem hófst aðfararnótt sunnudags norðan Siglufjarðar hefur haldið áfram og hafa skjálftarnir verið að færast austar og klukkan hálfsex í morgun mældist skjálfti af stærðinni fjórir.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur teldi brýnt að fylgst væri grannt með slíkri atburðarás vegna hættu á stærri skjálfta nær byggð og í dag birti Veðurstofan tilkynningu þar sem segir að ekki sé útilokað að hrinan hafi áhrif á Húsavíkur-Flateyjarmisgengið.

Jarðskorpumælingar á síðustu árum bendi til þess að nægileg spenna sé til staðar fyrir skjálfta af stærðinni um 6,8.

Athyglisvert er að frá árinu 1900 hafa tveir sjö stiga skjálftar orðið norðanlands, út af Skjálfanda árið 1910, 7,1 stig, og norðan Skagafjarðar 1963, 7,0 stig, og einn sunnanlands, 7,0 stig, á Rangárvöllum árið 1912. Skjálftar yfir sex stig urðu við Kópasker árið 1976 og Dalvík 1934, báðir 6,2 stig, og fjórir á Suðurlandi, tveir í júnímánuði árið 2000, 6,5 og 6,3 stig, og árið 2008 í Ölfusi 6,3 stig. Þá varð skjálfti upp á 6,2 stig í Selvogi árið 1929.

Á Siglufirði man eldra fólk vel eftir skjálftanum 1963. Meðal annars lýsir Guðmundur Skarphéðinsson, íbúi á Siglufirði, því þannig að rafmagn hafi farið af bænum og skemmdir hafi orðið víða á Norðurlandi. Mikill uggur hafi verið í fólki og stór hópur hafi þá safnast saman á íþróttavellinum til að ná sér niður og róa sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×