Erlent

Mikil reiði eftir að górilla var skotin til bana í gryfju í dýragarði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Górilla af sömu tegund og Harambe sem býr í öðrum dýragarði.
Górilla af sömu tegund og Harambe sem býr í öðrum dýragarði. vísir/getty
Samfélagsmiðlar í Bandaríkjunum loga eftir að stjórnendur dýragarðsins í Cincinatti ákváðu að skjóta górillu til bana í garðinum í gær. Það var gert eftir að fjögurra ára gamall drengur hafði dottið ofan í górillubúrið og karlapinn Harambe hafði tekið drenginn og dregið hann um búrið í nokkra stund.

Eftir að górillan hafði verið skotin hópuðust menn á Facebook og Twitter og gagnrýndu þá ákvörðun að skjóta dýrið þar sem það hafi ekki verið að ráðast á drenginn. Þannig hefur verið stofnuð Facebook-síða undir yfirskriftinni Justice for Harambe, eða „Réttlæti fyrir Harambe“, og hafa yfir 4000 manns látið sér líka við málstaðinn á samfélagsmiðlinum.

Þá hafa um 2500 manns skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem drápinu á Harambe er mótmælt og þess krafist að foreldrar barnsins verði ákærðir fyrir að hafa ekki haft nægilegt eftirlit með barninu í dýragarðinum.

Dýragarðsstjórinn í Cincinatti hefur bent á að karlgórillur séu gríðarlega sterkar og vegi tæp 200 kíló. Lítið hafi því þurft út af að bregða til að górillan hefði stórslasað drenginn eða jafnvel drepið hann og því hafi ákvörðunin verði tekin um að skjóta Harambe.

Harambe fæddist í dýragarði í Texas en var fluttur í dýragarðinn í Cincinatti árið 2014. Hann er af górillutegund sem er í útrýmingarhættu og átti að hann nota hann í dýragarðinum til þess að fjölga górillum af tegundinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×