Enski boltinn

Messan: Af hverju ertu svona á móti Rooney?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það var tekist á um hlutverk og framtíð Wayne Rooney hjá Manchester United í Messunni á Stöð 2 Sport á mánudagskvöldið.

Rooney hefur verið í litlu hlutverki hjá Jose Mourinho, knattspyrnustjóra United, og var sterklega orðaður við kínversku deildina í síðustu viku.

„Hann fer aldrei til Kína. Þær fréttir eru bara rugl og vitleysa,“ sagði Guðmundur Benediktsson en bætti þó við að greinilegt væri að Mourinho væri búinn að gefa leyfi á að Rooney gæti farið í sumar.

Þeir Bjarni Guðjónsson og Hjörvar Hafliðason voru þó ekki sammála um hvort að Rooney ætti að vera áfram hjá United eða fara.

„Ég hefði gaman að sjá hann í nýju hlutverki. Hann virðist búinn að átta sig á nýrri stöðu sem er komin upp,“ sagði Bjarni en Hjörvar var ekki sammála því og efaðist um að United hefði efni á því að vera með jafn dýran varamann og Rooney.

„Af hverju ertu svona á móti Rooney,“ sagði Bjarni við Hjörvar.

„Hann er bara búinn. Hann er ekki búinn að gera neitt í tvö ár,“ sagði sá síðarnefndi en hann væri til í að sjá Rooney aftur í æskufélagi sínu, Everton.

„Hann væri þá að fara heim. Það væri falleg saga,“ sagði Hjörvar.

„Ég held að þeir eigi að halda honum. Hann getur nýst liðinu,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×