Innlent

Merkið sett til að auka öryggi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hér má sjá vegamerkinguna eins og hún blasti við fólki.
Hér má sjá vegamerkinguna eins og hún blasti við fólki.
Mynd sem hefur gengið á Netinu og sýnir vegamerkingu á miðri akbraut á leiðinni til Þingvalla hefur vakið mikla furðu. Jafnvel hefur verið fullyrt að merkið kunni að valda árekstri.

„Það sem þetta snýst um er sem sé að þarna er verið að setja upp svokallað þéttbýlishlið, en þau eru sett upp á þjóðvegum sem liggja í gegnum þéttbýli til að ná niður hraðanum," segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Vísi. Hann bendir á að hlið, sambærilegt þessu, sé á leiðinni inn að Laugarvatni. Ákveðið hafi verið að gera það sama við þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem hámarkshraði innan þjóðgarðsins er 50 km/klst Hraðinn sé tekinn úr 90 í 70 áður en komið er að þéttbýlishliðinu og svo tekinn niður í 50 km/klst við hliðið.

Mynd sem sýnir hvernig svæðið á að vera.
G. Pétur segir að á myndinni á netinu sjáist ekki stóru hliðskiltin sem sjáist á teikningu af svæðinu. „Hinsvegar var það handvömm að öryggissvæðið og aðrar yfirborðsmerkingar voru ekki málaðar um leið og eyjan var sett upp sem sést á myndinni," segir G. Pétur. Hann bætir því við að allt sé þetta gert í umferðaröryggisskyni, til að auðvelda ökumönnum að sjá að þeir eru að fara inn á svæði með lægri hámarkshraða og þannig reyna að halda hraðanum innan þjóðgarðsins við 50 km/klst eða minna. Vegurinn sé ekki hannaður fyrir meiri hraða en það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×