Innlent

Meirihluti þjóðarinnar telur Ísland vera á rangri braut

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Athyglisverður munur kemur í ljós þegar skoðaður er munur á svörum eftir því hverju Íslendingar sögðust hafa áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi.
Athyglisverður munur kemur í ljós þegar skoðaður er munur á svörum eftir því hverju Íslendingar sögðust hafa áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. vísir/daníel
Meirihluti þeirra sem svöruðu könnun MMR þar sem kannað var hvort landsmenn telji hlutina á Íslandi almennt séð vera að þróast í rétta átt eð hvort þeir séu á rangri braut segja að hlutirnir á Íslandi séu almennt að þróast í ranga átt.

Könnunin var framkvæmd dagana 1. til 5. febrúar síðastliðinn og var heildarfjöldi þeirra sem svöruðu 983 einstaklingar, allir eldri en 18 ára. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar telja 54,3 prósent hlutina hér á landi almennt vera að þróast í ranga átt.

Í frétt á vef MMR segir um niðurstöður könnunarinnar:

„Athyglisverður munur kemur í ljós þegar skoðaður er munur á svörum eftir því hverju Íslendingar sögðust hafa áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum, fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og viðhaldi velferðakerfisins voru líklegri til að telja hlutina á Íslandi almennt séð á rangri braut. Þeir sem höfðu mestar áhyggjur af glæpum og ofbeldi, ofþyngd barna og verðbólgu reyndust líklegri til að telja hlutina á réttri leið.“

Af þeim sem kváðust hafa áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum töldu 68 prósent hlutina hér á landi almennt séð vera á rangri braut. Af þeim sem kváðust hafa áhyggjur af glæpum og ofbeldi töldu 80 prósent hlutina vera að þróast í rétta átt.

Þá töldu 51 prósent þeirra sem voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu hlutina vera á rangri braut samanborið við 61 prósent landsbyggðarinnar. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar voru svo líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að telja hlutina vera að þróast í rétta átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×