Innlent

Meirihluti Reykvíkinga segist myndu kjósa með aðild að Evrópusambandinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Rúmlega helmingur íbúa Reykjavíkur myndi líklegast kjósa með aðild að Evrópusambandinu ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Í sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur myndu svipað margir kjósa með og á móti en í öðrum sveitarfélögum á landinu myndi stór meirihluti kjósa gegn aðild. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup vann fyrir Já Ísland, samtök Evrópusinna á Íslandi.

Samkvæmt könnuninni myndu 56 prósent Reykvíkinga líklegast styðja aðild að Evrópusambandinu en 77 prósent íbúa landsbyggðarinnar líklegast kjósa gegn aðild. Íbúar í sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur myndu skiptast nokkuð jafnt, 48 prósent með og 52 prósent á móti.

Í könnuninni kemur einnig fram að hæstu og lægstu tekjuhópar landsins myndu líklegast styðja aðild, en aðrir tekjuhópar ekki. 52 prósent þeirra með fjölskyldutekjur undir 250.000 krónum á mánuði myndu líklegast styðja aðild, sem og 67 prósent þeirra með fjölskyldutekjur yfir milljón krónum á mánuði.

Þá er fylgni milli menntunarstigs og stuðnings við aðild að Evrópusambandinu samkvæmt könnuninni. Myndu 72 prósent þeirra með grunnskólapróf líklegast kjósa gegn aðild, 57 prósent þeirra með framhaldsskólapróf en 45 prósent þeirra með háskólapróf.

Stuðningsmenn stjórnarflokkanna tveggja voru líklegastir til þess að kjósa gegn aðild að sambandinu. Sautján prósent þeirra sem kjósa myndu Sjálfstæðisflokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag myndu líklegast styðja aðild en aðeins fjögur prósent þeirra sem kjósa myndu Framsóknarflokkinn.

Um netkönnun er að ræða sem fór fram dagana 5. til 16. febrúar. Úrtak samanstóð af 1.405 manns, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfall 62,1 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×