Innlent

Meirihluti landsmanna á móti gjaldtöku

Heimir Már Pétursson skrifar
Meirihluti landsmanna er mótfallinn því að innheimt verði gjald fyrir að skoða helstu náttúruperlur landsins. Andstaðan er mest á meðal kjósenda Pírata,  í Norðvesturkjördæmi og Kraganum.

Deilur hafa staðið milli landeigenda á Geysi og ríkisins um innheimtu gjalds á ferðamenn sem koma að Geysi en iðnaðarráðherra hefur í undirbúningi upptöku náttúrupassa sem myndi gilda á helstu ferðamannastaði landsins.

Í nýrri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö var spurt hvort fólki þætti rétt að innheimta gjald af þeim sem skoða helstu náttúruperlur landsins.

Af þeim sem tóku afstöðu segja 42,2 prósent það vera rétt en 57,8 prósent telja það ekki rétt.

54 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Bjarta framtíð eru á móti gjaldheimtunni en 46 prósent eru henni fylgjandi.

Naumur meirihluti kjósenda Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks styðja gjaldheimtuna, eða 52 prósent kjósenda hvors flokks en 48 prósent kjósenda stjórnarflokkanna telja ekki rétt að innheimta gjaldið.

Fjörtíu prósent kjósenda Samfylkingarinnar telja rétt að innheimta gjald á helstu ferðamannastöðum en 60 prósent eru því mótfallin, en einungis 29 prósent kjósenda Vinstri grænna styðja gjaldtökuna og 71 prósent eru á móti.

Andstaðan er þó mest meðal kjósenda Pírata, því 27 prósent þeirra telja rétt að innheimta gjaldið en 73 prósent kjósenda þeirra telja ekki rétt að innheimta gjald fyrir aðgang að helstu náttúruperlum landsins.

Afstaða fólks er keimlík eftir búsetu.

Þannig telja 43 prósent Reykvíkinga rétt að innheimta gjaldið en 57 prósent eru á móti, 38 prósent í norðvesturkjördæmi styðja gjaldið en þar eru flestir á móti því eða 62 prósent, í norðausturkjördæmi styðja 45 prósent gjaldið en 55 prósent eru því andsnúin, sömu sögu er að segja í Suðurkjördæmi en í suðvesturkjördæmi eða Kraganum, telja 40 prósent rétt að innheimta gjald af ferðamönnum við helstu náttúruperlur landsins en 60 prósent eru á móti því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×