Erlent

Meinað að ganga í staðfesta samvist

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rebecca Steinfeld og Charles Keidan fyrir utan áfrýjunardómstól í London.
Rebecca Steinfeld og Charles Keidan fyrir utan áfrýjunardómstól í London. vísir/epa
Breska parið Rebecca Steinfeld og Charles Keidan hafa tapað máli fyrir breskum áfrýjunardómstól, sem hafnaði því að þau mættu skrá sig í borgaralega samvist.

Þau eru gagnkynhneigð en bresku lögin um borgaraleg samvist, eða staðfest samvist eins og það hét hér á landi, var hugsuð handa samkynhneigðum pörum.

Áfrýjunardómstóllinn segir að lögin geri ekki ráð fyrir því að gagnkynhneigð pör nýti sér þennan möguleika, en reyndar geti þingið breytt þessum lögum. Nú þegar liggi fyrir breska þjóðþinginu frumvarp í þá veru.

Dómstóllinn viðurkennir í úrskurði sínum, að hugsanlega geti þetta fyrirkomulag talist mannréttindabrot gagnvart þeim Steinfeld og Keidan sem og öðrum gagnkynhneigðum pörum, sem kynnu að vilja staðfesta samvist sína á þessum forsendum.

Hins vegar eigi dómstólar ekki að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnvöldum, að minnsta kosti ekki á þessu stigi málsins.

Þau Steinfeld og Keidan eru staðráðin í að áfrýja máli sínu til Hæstaréttar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×