Innlent

Með heila hreindýrahjörð í garðinum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Það fyrsta sem ég sá í gæmorgun var hreindýrshaus við gluggann hjá mér. Það var óneitanlega svolítið skrýtið,“ segir Gunnlaugur Steinarsson, íbúi á Bakkafirði, í samtali við Vísi en þegar hann leit út um glugga íbúðarhúsi sínu í gærmorgun blasti við honum heil hreindýrahjörð, japlandi á grasinu í garðinum hjá Gunnlaugi.

Gunnlaugur tók meðfylgjandi myndir og eins og sjá má var nóg um að vera í garðinum en Gunnlaugur telur að líklega hafi hjörðin talið um 40-50 hreindýr, þar á meðal nokkrir kálfar.

Aðspurður hvort að þetta væri algeng sjón segir Gunnlaugur að hreindýrin haldi til í nágrenni Bakkafjarðar og upp á heiðum inn í sveit og sæki stundum í nágrenni bæjarins. Algengt sé að þau leiti eftir fæði á knattspyrnuvelli bæjarfélagsins og tjaldsvæði en þó sé sjaldgæft að þau leiti inn í garða hjá bæjarbúum.

Gunnlaugur segir að æ algengara sé að veiðimenn komi á Bakkafjörð í þeim tilgangi að skjóta hreindýr á heiðunum í kring. Sjálfur hefur hann ekki farið á hreindýraveiðar þrátt fyrir að vera áhugamaður um veiðar.

„Ég er veiðimaður þó að ég hafi ekki farið á hreindýraveiðar. Það kitlar svolítið að fara að veiða þegar maður sér þetta í svona návígi, ég verð að viðurkenna það,“ segir Gunnlaugur.

Sjá má myndirnar sem Gunnlaugur tók í meðfylgjandi myndasafni.

Mynd/Gunnlaugur Steinarsson
Mynd/Gunnlaugur Steinarsson
Mynd/Gunnlaugur Steinarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×