Erlent

May um Brexit: Bretar verði ekki aðilar að innri markaðnum

atli ísleifsson skrifar
Ræðu Theresu May var beðið með mikilli eftirvæntingu.
Ræðu Theresu May var beðið með mikilli eftirvæntingu. Vísir/AFP
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar geti ómögulega verið áfram aðilar að innri markaði Evrópusambandsins eftir útgöngu ríkisins. Slíkt myndi þýða að ríkið væri í raun ekki að ganga úr sambandinu.

May hélt í morgun ræðu þar sem hún útlistaði hvernig bresk stjórnvöld hugðust nálgast Brexit, en ræðunnar var beðið með mikilli eftirvæntingu.

May sagði að hún myndi þó þrýsta á að Bretar fái sem greiðastan aðgang að innri markaðnum eftir útgöngu. Þá sagði hún að breska þingið muni fá að eiga lokaorðið um hvernig sambandi Bretlands og Evrópusambandsins verði háttað.

Í ræðunni sagði May að „miklar fjárveitingar“ Breta til Evrópusambandsins muni nú ljúka.

Í frétt BBC kemur fram að May hafi útlistað markmið breskra stjórnvalda þegar kæmi að viðræðunum við ESB í tólf liðum.

Á meðal þeirra atriða sem May nefndi voru:

  • Neðri deild breska þingsins greiði atkvæði um lokasamning ESB og Bretlands, áður en hann tekur gildi
  • Unnið verður að því að viðhalda „sameiginlegu ferðasvæði“ milli Bretlands og Írlands
  • Breska stjórnin mun vinna að því að ná sem víðtækustum fríverslunarsamningi
  • May sagðist vilja að gerður verði tollasamningur við ESB
  • Ríkisborgarar aðildarríkja ESB verði áfram velkomnir í Bretlandi


„Nú verðum við að stíga skref til baka og spyrja okkur hvers konar land við viljum vera. Ég vil að Bretland muni aftur stíga fram öflugra en áður, öruggara og sameinað. Ég vil að þetta verði raunverulega alþjóðlegt Bretland,“ sagði May.


Tengdar fréttir

May stefnir á „hart Brexit“

Forsætisráðherra Bretlands mun flytja ræðu um Brexit-ferlið síðar í dag og er hennar beðið með mikilli eftirvæntingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×