Körfubolti

Martin valinn í lið ársins í NEC-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson fór með íslenska landsliðinu á Evrópumótið og spilaði þar við suma bestu körfuboltamenn heims.
Martin Hermannsson fór með íslenska landsliðinu á Evrópumótið og spilaði þar við suma bestu körfuboltamenn heims. Vísir/EPA
Martin Hermannsson var í dag valinn í fimm manna úrvalslið ársins í NEC-deild bandaríska háskólakörfuboltans en þetta er mikill viðurkenning á frábærri frammistöðu íslenska landsliðsmannsins í vetur.

Martin er einn af þremur bakvörðum í liðinu en einn liðsfélagi hans, framherjinn Jerome Frink, var einnig valinn í liðið. Martin var þrisvar sinnum kosinn leikmaður vikunnar á tímabilinu en hann hefur bætt sig mikið frá hans fyrsta ári í fyrra.

Í grein um valið á heimasíðu NEC-deildarinnar er talað um að Martin beri sig að eins og reynslubolti þrátt fyrir að vera ennþá bara á öðru ári. Martin komst inn á topp fimmtán í sjö tölfræðiþáttum en hann var með 16,5 stig og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Frammistaða íslenska bakvarðarins í síðustu tíu leikjum deildarkeppninnar átti mikinn þátt í að LIU Brooklyn komst í úrslitakeppnina en Martin var þá með 20,8 stig, 6,4 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Framundan er fyrsta umferð úrslitakeppninnar á móti Sacred Heart háskólanum þar sem Martin fær að glíma við bakvörðinn Cane Broome sem var einnig valinn í úrvalsliðið. Broome var einnig valinn leikmaður ársins í NEC-deildinni. Úrslitakeppnin hefst á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×