Körfubolti

Martin neyddi harðfisk ofan í liðið sitt | Alveg hræðilegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin, til vinstri, í leik með LIU.
Martin, til vinstri, í leik með LIU. Vísir/Getty

Íslendingarnir þrír sem leika með háskólaliðum í New York eru til umfjöllunar í Wall Street Journal þar sem ljósi er varpað á bæði LIU- og St. Francis-liðin sem eru óhrædd að leita út fyrir Bandríkin að efnilegum leikmönnum.

Martin Hermannsson er á öðru ári hjá LIU-háskólanum og er þar í lykilhlutverki. Gunnar Ólafsson og Dagur Kár Jónsson leika svo með St. Francis og eru þeir allir þrír hluti af fjölþjóðlegum leikmannahópum skólanna tveggja.

„Það furðulegasta sem maður heyrir er bandarískum háskólakörfubolta er rúmlega tveggja metra Nígeríumaður að blóta á íslensku. En það er eðlilegt í búningsklefa LIU-skólans í Brooklyn,“ segir í upphafi greinarinnar en umræddur Nígeríumaður, Nura Zanna, segist vera frægur á Íslandi fyrir kunnáttu sína á íslenskum blótsyrðum.

LIU og St. Francis eiga ekki möguleika á að lokka til sín bestu ungu leikmenn Bandaríkjanna og leita því ýmissa leiða til að byggja upp sterkan leikmannahóp. Fram kemur í greininni að Andy Johnston, fyrrum þjálfari Keflavíkur, hafi verið milliður fyrir íslensku leikmennina en hann var aðstoðarþjálfari hjá báðum skólum á sínum tíma.

„Körfuboltaheimurinn heima er lítill. Það er frekar fyndið að við skulum vera í stærstu borg heims að spila gegn hverjum öðrum,“ er haft eftir Martin í greininni en hann telur að evrópskir leikmenn séu með meira körfuboltavit en bandarískir. „Það er ekki erfitt að aðlagast lífinu utan vallar,“ bætir hann við.

Martin hefur reynt að kynna liðsfélögum sínum fyrir íslenskri menningu og mætti eitt sinn með harðfisk, sem hann lét þá alla smakka. „Alveg hræðilegt,“ sagði þjálfarinn Jack Perri um reynsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×