Viðskipti innlent

Markaðsmisnotkunarmálið: „Hvað er að frétta af dauða kettinum?”

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, lengst til vinstri. Saksóknari spilaði brot úr símtali Péturs við Ingólf í dómssal.
Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, lengst til vinstri. Saksóknari spilaði brot úr símtali Péturs við Ingólf í dómssal. Vísir/GVA
Gríðarlegur fjöldi málsgagna er undir í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings en aðalmeðferð fer þessa dagana fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Saksóknari, Björn Þorvaldsson, spyr nú einn ákærðu, Pétur Kristinn Guðmarsson, út í einstaka viðskiptadaga á tímabilinu sem ákæran nær til. Hann hefur meðal annars spilað fjölda símtala í dómnum og spurt Pétur út úr þeim.

Pétur var starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings og er ákærður fyrir að hafa tekið þátt í allsherjarmarkaðsmisnotkun með því að kaupa mikið af hlutabréfum í bankanum með það að augnamiði að halda verði þeirra uppi.

 

Eitt símtalanna sem spilað var í morgun er frá 24 .janúar 2008 og er á milli Péturs og Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi:

 

IH: „Hvað er að frétta af dauða kettinum?”

PMG: „Hann er bara að lúra og mala.”

IH: „Er það ekki?”

PMG: „Jú.”

IH: „Er hann ekki snöggur upp ef það er sparkað í hann.”

PMG: „Ég held það.”

 

Ingólfur spyr Pétur svo hvað þeir séu búnir að kaupa mikið í dag og seinna í símtalinu segist Pétur vera með tvö kauptilboð á markaðnum:

 

PMG: „Þetta er raunveruleg kauphlið.”

IH: „Þetta er heilbrigt og flott í bili.”

 

Undir lokin segir Ingólfur að þeir skuli svo sjá „hvort að kötturinn nái ekki aðeins að ... þegar líður á daginn.”

 

Síðar sama dag töluðu Pétur og Ingólfur aftur saman og þá aftur um köttinn. Saksóknari virðist líta svo á að það sé tilvísun í hlutabréf Kaupþings. Ingólfur spyr Pétur hvar hann ætli að loka „kettinum í dag.” Pétur svaraði því að þeir myndu örugglega loka í 700. Svo segir hann:

 

„En það eru gríðarlega fínar kauphliðar í bankanum fyrir utan okkur. [...] Það svona finnst mér heilbrigt að sjá.”

 

Saksóknari spurði Pétur hvað Ingólfur hefði átt við með spurningunni um hvar hann ætlaði að loka kettinum í dag.

 

„Hann er að vísa í hvað við ætlum að gera í lokun. Hvað ætlarðu að kaupa og selja í lokun.”

 

Björn spurði þá hvort það hafi verið þeirra að ákveða hlutabréfaverðið í lok dags.

 

„Við erum bara þátttakendur á markaði. Það er ekkert óeðlilegt að taka þátt í því.”

 

Saksóknari benti þá á að það væri óeðlilegt að stefna að vissu gengi.

 

„Við erum þarna að tala um að kaupa bréfin á 700. Ég bendi réttinum á að þetta lokaði í 701. [...] Þú ert að segja að við séum að stjórna markaðnum en það eru aðrir á markaðnum. Það er markaðarins að ákveða verðið í lok dags.”


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×