Viðskipti innlent

Már: Kaup lífeyrissjóða greiða fyrir afléttingu gjaldeyrishafta

„Lífeyrissjóðirnir hafa með þátttöku sinni lagt þungt lóð á vogaskálar þeirrar efnahagslegu endurreisnar sem nú stendur yfir hér á landi," segir Már
„Lífeyrissjóðirnir hafa með þátttöku sinni lagt þungt lóð á vogaskálar þeirrar efnahagslegu endurreisnar sem nú stendur yfir hér á landi," segir Már

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að samkomulagið við lífeyrissjóðina greiði fyrir afnámi gjaldeyrishafta en undirstrikar um leið þann mikla styrk sem felst í því fyrir Ísland að hafa svo öfluga lífeyrissjóði sem raun ber vitni.

„Þeir hafa með þátttöku sinni lagt þungt lóð á vogaskálar þeirrar efnahagslegu endurreisnar sem nú stendur yfir hér á landi," segir Már í tilkynningu um málið en sem kunnugt er hafa lífeyrissjóðirnir keypt íbúðabréf þau sem Seðlabankinn eignaðist nýlega með samkomulagi við seðlabanka Lúxemborgar.

Lífeyrissjóðirnir munu greiða fyrir eignirnar, rúmlega 90 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri á skráðu kaupgengi Seðlabanka Íslands. Þessi fjárfesting telst ekki nýfjárfesting í skilningi laga um gjaldeyrismál.

Viðskiptin munu ekki breyta þeim áætlunum sem þegar liggja fyrir um útgáfu markaðshæfra ríkisverðbréfa.

Þau viðskipti sem nú hafa náðst ásamt þeim samningum sem gerðir voru varðandi eignir Avens B.V. í Lúxemborg 18. maí síðastliðinn hafa áhrif á skuldastöðu þjóðarbús og ríkissjóðs, auk þess sem erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins batnar verulega.

Í fyrsta lagi lækka bæði heildarskuldir og hreinar skuldir þjóðarbúsins um rúmlega 3½% af landsframleiðslu. Heildarskuldir ríkissjóðs í erlendri mynt aukast hins vegar sem nemur rúmlega 3½% af landsframleiðslu en á móti batnar gjaldeyrisstaða ríkissjóðs og Seðlabanka samtals um sem nemur 5½% af landsframleiðslu.

Með þessum viðskiptum má líta svo á að ríkisjóður hafi fjármagnað sig á kjörum sem jafngilda 0,75% föstum vöxtum til 15 ára.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×