Enski boltinn

Man Utd í góðri stöðu fyrir seinni leikinn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maraoune Fellaini og José Mourinho féllust í faðma eftir að sá fyrrnefndi kom Man Utd í 2-0.
Maraoune Fellaini og José Mourinho féllust í faðma eftir að sá fyrrnefndi kom Man Utd í 2-0. vísir/getty
Manchester United er í góðri stöðu fyrir seinni leikinn gegn Hull City í undanúrslitum enska deildarbikarsins eftir 2-0 sigur í fyrri leik liðanna á Old Trafford í kvöld.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum þótt fyrsta markið léti á sér standa.

Það kom loks á 56. mínútu þegar Juan Mata skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Antonios Valencia og Henrikhs Mkhitaryan.

United fékk færi til að bæta fleiri mörkum við og Paul Pogba átti m.a. skot í stöngina beint úr aukaspyrnu.

Maraoune Fellaini skoraði síðara mark United á 87. mínútu, átta mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Belginn skallaði þá fyrirgjöf Matteos Darmian í netið. Lokatölur 2-0, United í vil.

Þetta var níundi sigur United í röð og liðið hefur ekki tapað í 15 leikjum í röð.

Seinni leikur United og Hull fer fram á KC vellinum 26. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×