Sport

Málstofa um mál málanna í íþróttaheiminum | „Veðjað á rangan hest“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett/Getty
Mikil umræða hefur skapast síðustu misseri um aukinn áhuga veðmálsíðna og fjárhættuspilara á íslenskum boltaleikjum.

Í dag er hægt að veðja um úrslit í nær öllum boltaleikjum á Íslandi en það er líka farið að veðja á úrslit yngri flokka leikja eins og sást þegar fjöldi fjárhættuspilara var mættur á leik Fylkis og Fram í Reykjavíkurmótinu í 2. flokki karla í vikunni eins og fram kom á Vísi.

Sjá einnig:Tipparar mokgræddu á unglingaleik í Árbæ

Breyttar kringumstæður og meiri líkur á hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum kallar á umræðu og fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að leikmenn láti plata sig út í slíkt.

Lagadeild Háskólans í Reykjavík, í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Knattspyrnusamband Íslands stendur á morgun fyrir málstofu um hættuna af hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum og nauðsynleg viðbrögð.

Málstofan heitir „Veðjað á rangan hest“ og þar verður meðal annars fjallað um tengsl við skipulagða glæpastarfsemi, skuldbindingar Íslands í baráttunni gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum og hagræðing úrslita í íslenskri knattspyrnu.

Málstofan verður haldin í stofu V101 í Háskólanum í Reykjavík og er fram föstudaginn 31. mars, frá klukkan 12:00 - 14:00. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að áhugasamir mætir og hlusti á þá sex fyrirlesara sem koma með sína sýn á málið.

Auk þess munu Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Þorvaldur Ingimundarson, heilindafulltrúi KSÍ, taka þátt í pallborðsumræðum þar sem þátttakendur eru frummælendur.



Dagskrá:

Setning

Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild HR

Skipulögð glæpastarfsemi og hagræðing úrslita

Sveinn Helgason, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu

Peningaspil og hagræðing úrslita í íslenskri knattspyrnu

Hafrún Kristjánsdóttir, lektor í HR og Daníel Þór Ólason, prófessor við HÍ

Veðjað á hliðarlínunni

Arnar Már Björgvinsson, lögfræðingur og knattspyrnumaður

Skuldbindingar Íslands í baráttunni gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum

Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og formaður starfshóps um tillögur vegna hagræðingar úrslita í íþróttakeppnum

Pallborðsumræður

Þátttakendur eru frummælendur, Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Þorvaldur Ingimundarson, heilindafulltrúi KSÍ

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×