Viðskipti innlent

Mældu yfir 1600 dósir og hver einasta uppfyllti lágmarksmagn af skyri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ekkert bendir til þess að skyr sem MS framleiði sé undir þeirri þyngd sem tilgreind er á dósunum. Þvert á móti.
Ekkert bendir til þess að skyr sem MS framleiði sé undir þeirri þyngd sem tilgreind er á dósunum. Þvert á móti. Mynd af vefsíðu MS
MS hefur reglubundið eftirlit með vigtun á allri framleiðslu fyrirtækisins, þar með talið eftirlit með pökkun á skyri og öðrum sýrðum vörum í dósir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MS til Vísis vegna fréttar á laugardaginn þar sem Elísabet Ólafsdóttir, betur þekkt sem Beta Rokk, fullyrti að skyrmagn í stórum dósum KEA, sem framleitt er af Mjólkursamsölunni, væri undir því magni sem tilkynnt væri á hverri dós.

Fjallað var um fullyrðingu Betu um helgina þar sem hún sagðist hafa mælt magnið úr hverri dós sem hún hefði borðað undanfarin átta ár. Nú hefði steininn tekið úr og hún krafist þess að MS greiddi henni tólf þúsund krónur, sem væri verð þess skyrs sem hefði ekki skilað sér í dollurnar undanfarin ár.

Beta dró í land um helgina og skýrði frá því að það væri ekki rétt að hún hefði vigt dósirnar allan þennan tíma. Þá hefði sömuleiðis komið í ljós að allar þrjár vogirnar sem hún notaði til að vigta skyrið hefðu reynst bilaðar. 

Um sjö grömm af skyri umfram lágmarksmagn

Eftirlit MS með þyngd er framkvæmd á tveimur stöðum í framleiðsluferlinu að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Fyrst við pökkun og síðan á rannsóknarstofu MS. Er skemmst frá því að segja að rúmlega 1600 dósir voru mældar á bilinu janúar til október í ár og reyndist engin vera undir 520 grömmum sem er lágmarksþyngdarkrafan.

Raunar staðfestu mælingarnar að jafnaði eru um 7,3 grömm af skyri umfram lágmarksmagn per dós.

„Þá vill MS koma því á framfæri við neytendur að fyrirtækið tekur öllum ábendingum um vörur þeirra alvarlega og er alltaf tilbúið að hlusta á neytendur þegar gerðar eru athugasemdir við vörur MS.“


Tengdar fréttir

Sakar MS um að svindla vísvitandi á neytendum

Elísabet Ólafsdóttir hefur mælt skyrmagn í dósum í 8 ár og segist nær aldrei hafa fengið það magn sem auglýst sé á umbúðunum. Kvartaði til neytendastofu í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×