Erlent

Lýsa yfir þungum áhyggjum af árásargirni Rússa

Atli Ísleifsson skrifar
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hittust á fundi fyrr í dag.
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hittust á fundi fyrr í dag. Vísir/AFP
Utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB hafa lýst yfir þungum áhyggjum af „árásargirni Rússa í garð Úkraínumanna“.

Leiðtogar aðildarríkja sambandsins koma saman síðar í dag og íhuga nú að beita Rússum frekari viðskiptaþvingunum vegna framgöngu þeirra í Úkraínudeilunni. Einnig stendur til að ná samkomulagi um hverjir skulu gegna stöðu forseta leiðtogaráðsins og stöðu utanríkismálastjóra næstu misserin.

Catherine Ashton, utanríkismálastjóri sambandsins, hvatti Rússa til að draga herlið sitt til baka frá landamærum Úkraínu þegar í stað og stöðva allar vopnasendingar til aðskilnaðarsinna.

Rússar hafa hins vegar hafnað öllum ásökunum um að þeir styðji við bakið á aðskilnaðarmönnum í austurhluta Úkraínu.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, varaði rússnesk stjórnvöld við að ESB væri reiðubúið að standa með grunngildum sínum og kallaði eftir pólitískri lausn áður en deilan nái þeim tímapunkti „að ekki verði aftur snúið“.

Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti mun sækja leiðtogafundinn síðar í dag og segir Úkraínu vera fórnarlamb hernaðarlegs yfirgangs og hryðjuverka af hendi þúsunda erlendra hermanna og fleiri hundruð skriðdreka.

Talsmaður Úkraínuhers sagði rússneska skriðdreka hafa ráðist á bæinn Novosvitlivka, nærri Luhansk og „svo gott sem eyðilagt sérhvert hús.“ Sunnar hafa íbúar flúið hafnarborgina Mariupol, eftir að aðskilnaðarsinnar náðu tökum á bænum Novoazovsk, skammt frá Mariupol, skömmu fyrir helgi.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kennir Úkraínumönnum um ástandið í landinu og líkti í gær umsátri Úkraínuhers um Donetsk og Luhansk við umsátur nasista um Leníngrad í seinna stríði.

Í frétt BBC segir að áætlað sé að um 2.600 hafi fallið í átökum aðskilnaðarsinna og úkraínska hersins. Deilan um héruðin Donetsk og Luhansk spruttu upp í apríl í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×