Erlent

Lýsa yfir hungursneyð í Suður-Súdan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Agop Manut er ellefu mánaða og alvarlega vannærður.
Agop Manut er ellefu mánaða og alvarlega vannærður. vísir/afp
Hungursneyð hefur verið lýst yfir í Unity-ríki Suður-Súdans. Er það í fyrsta sinn í sex ár sem lýst er yfir hungursneyð í heiminum.

Ríkisstjórn landsins sem og Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að um hundrað þúsund Suður-Súdanar séu við það að svelta. Þá séu milljónir á barmi hungursneyðar.

Góðgerðarsamtök á svæðinu og á heimsvísu hafa varað við því að hungursneyðin brjótist út fyrir mörk ríkisins ef ekki verður skorist í leikinn. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir nærri fimm milljónir líða sáran skort.

Orsökin er sögð borgarastyrjöldin sem nú hefur staðið yfir í rúm þrjú ár og efnahagshrun sem landið hefur gengið í gegnum. Einnig hefur verið varað við hungursneyð í Jemen, Sómalíu og norðausturhluta Nígeríu undanfarin misseri en Suður-Súdan er fyrsta ríkið í þessum hópi til að lýsa formlega yfir hungursneyð. Áður hefur hungursneyð verið lýst yfir á svæðinu sem nú kallast Suður-Súdan. Það var árið 1998, áður en svæðið fékk sjálfstæði frá Súdan.

Hungursneyð er formlega lýst yfir þegar að minnsta kosti tuttugu prósent heimila líða sáran skort og geta lítið við því gert, vannæring hrjáir meira en þrjátíu prósent íbúa og fleiri en tveir af hverjum tíu þúsund deyja úr hungri á degi hverjum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×