Viðskipti innlent

Lúxusdýfa og lakkrískurl í íslenskri ísbúð í London

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Philip og Vera ásamt dóttur sinni en ísbúði þeirra heitir Bears Ice Cream Company.
Philip og Vera ásamt dóttur sinni en ísbúði þeirra heitir Bears Ice Cream Company. mynd/vera
„Við erum búin að búa í þessu hverfi Hammersmith í nokkur ár og hugsuðum oft þegar við fórum í íslenskar ísbúðir að þetta væri eitthvað sem gæti virkað hérna,“ segir Vera Þórðardóttir, íslensk kona sem er búsett í London, en hún opnar á föstudaginn íslenska ísbúð í stórborginni ásamt eiginmanni sínum, Philip Harrison.

Vera og Philip hófu undirbúning að opnun ísbúðarinnar fyrir um ári síðan þegar þau fóru að svipast um eftir hentugu húsnæði í Hammersmith en það er fjölskylduvænt hverfi í Vestur-London.

„Gelaterias“ og „sundae shops“ í hverfinu

Vera segir að í hverfinu séu nokkrar ísbúðir en þær eru ekki sambærilegar við ísbúðirnar sem Íslendingar þekkja.

„Þetta eru mest svona „gelaterias“ og „sundae shops“ sem er svona ítalska og bandaríska „konseptið“ á bak við ísbúð en við erum sem sagt að taka íslenska „konseptið“ og bjóða upp kaldan, þykkan og mjúkan ís eins og við þekkjum í íslenskum ísbúðum.“

Ísinn kemur frá litlu bóndabýli á eyjunni Jersey

Vera og Philip athuguðu hvort möguleiki væri á að flytja inn ís frá Íslandi en það var of flókið upp á geymslu og flutning að gera. Þau fá því ísinn sinn frá litlu bóndabýli á eyjunni Jersey.

„Hann er mjög ferskur og góður. Ég er svolítill íssnobbari og var viss um að við ættum aldrei eftir að finna neitt jafngott og íslenska ísinn en þetta er alveg sambærileg blanda sem við erum að fara að bjóða upp á,“ segir Vera.

Íslenskt nammi og íslenskar dýfur

Í ísbúðinni verður í boði að fá íslenskar dýfur á ísinn, eins og hina sívinsælu lúxusdýfu, og íslenskt nammi, til dæmis Nóa Kropp og íslenskan lakkrís. Þá verður hægt að fá bragðaref sem er að sögn Veru eitthvað alveg nýtt fyrir Bretum.

Vera er fatahönnuður og ráðgjafi og er í fullri vinnu við það og maðurinn er yfirkokkur á breskum pöbb. Ísbúðin er því hliðarverkefni þeirra hjóna en Vera segist mjög spennt fyrir því að opna ísbúðina og kynna hana fyrir öllum þeim fjölda Íslendinga sem býr í London.

„Við viljum endilega heyra frá Íslendingum hér hvaða óskir þeir hafa. Við vitum náttúrulega hvað Íslendingar elska ís mikið og ég er bara mjög spennt að geta komið með smá af íslenskri ísmenningu hingað út,“ segir Vera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×