Innlent

Lúpína lokkar aufúsugesti

Svavar Hávarðsson skrifar
Hrossagaukur og þúfutittlingur voru mjög áberandi þar sem lúpína sprettur.
Hrossagaukur og þúfutittlingur voru mjög áberandi þar sem lúpína sprettur. vísir/gva
Tífalt fleiri fuglar þrífast á uppgræddu mólendi en á óuppgræddu landi. Í landi sem grætt hefur verið upp með alaskalúpínu er hlutfallið tuttugufalt.

Þetta kemur fram í nýrri grein sem birt er í rafræna tímaritinu Ice­landic Agricultural Sciences, og er eftir fræðifólkið Brynju Davíðsdóttur, Tómas Grétar Gunnarsson, Guðmund Halldórsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson – og segir frá á vef Skógræktarinnar.

Höfundar rannsökuðu áhrif mismunandi landgræðsluaðgerða á þéttleika og tegundasamsetningu fugla og á fjölda smádýra. Á 26 stöðum á landinu voru borin saman óuppgrædd svæði, endurheimt mólendi og land sem hafði verið grætt upp með alaskalúpínu.

„Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna,“ segir á skogur.is.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu.

Þéttleiki sumra fuglategunda virtist vera háður framvindustigi landgræðslusvæða.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×