Skoðun

Losun hafta, ekki afnám

Vala Valtýsdóttir skrifar
Nú nýverið tóku gildi breytingar á gjaldeyrislögum er varða losun gjaldeyrishafta. Heildarheimild fjármagnshreyfinga samkvæmt ákvæðunum nemur allt að 30 milljónum fram til áramóta og síðan hækkar þessi heimild í 100 milljónir frá og með 1. janúar 2017 (ótímabundið en ekki per ár).

Hvað má og hvað má ekki

Það má fyrirframgreiða og uppgreiða lán. Auk þess má fjárfesta í verðbréfum í erlendum gjaldeyri og tekur sú heimild gildi 1. janúar 2017. Bein erlend fjárfesting innlendra aðila er heimil að því gefnu að fjárfestingin nemi a.m.k. 10%. Einnig er heimilt nú að fyrirframgreiða arf milli landa – já, það er ótrúlegt að þetta hafi verið harðbannað. Einstaklingar mega kaupa eina fasteign erlendis á ári og það er heimilt að greiða staðfestingargjald af kaupverði fasteignar án fyrirfram samþykkis Seðlabankans.

Það má hins vegar ekki taka út gjaldeyri af eigin gjaldeyrisreikningi hérlendis nema viðkomandi eigi ónýtta heimild (100 milljónir). Þó er heimilt að taka út eigin gjaldeyri í íslenskum banka ef hann er notaður til fyrirframgreiðslu láns eða uppgreiðslu að því gefnu að viðkomandi hafi ekki nýtt sér heildarheimildina. Það er ekki hægt að kaupa gjaldeyri nema sé um að ræða undanþegna fjármagnsflutninga. Til dæmis er nú heimilt að kaupa aðra fasteign fyrir tjónabætur sem viðkomandi móttekur vegna tjóns á annarri fasteign. Síðan er líka heimilt að nota leigutekjur af erlendri fasteign til að greiða rekstrarkostnað af þeirri fasteign.

Bindiskylda erlendra aðila

Erlendir fjárfestar geta þurft að sæta því að 40% af fjárfestingu, í íslenskum krónum, sæti bindiskyldu í eitt ár. Bindiskyldan á við um fjárfestingu sem ber 3% vexti eða meira.

Meðferð aflandskróna

Um svipað leyti og breytingar voru gerðar á gjaldeyrislögum vegna losunar hafta voru sett lög um meðferð krónueigna sem í daglegu tali eru nefndar aflandskrónur. Aðferðin við að taka á því „vandamáli“ var að efna til gjaldeyrisútboðs þar sem eigendur fengu evrur í stað krónueignanna, á afslætti að sjálfsögðu. Það sem kom á óvart vegna þessarar lagasetningar var hins vegar að innlendir aðilar sem voru svo óheppnir að eiga t.d. ríkisskuldabréf, sem voru í vörslu erlendra fjármálastofnana, lentu einnig í þessari „eignaupptöku“.

Að sjálfsögðu er umfjöllunin hér að framan mjög yfirborðskennd en er vonandi eitthvað lýsandi fyrir lesendur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×