Lífið

Lostastundin er ekki við hæfi barna

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Kristín Karólína Helgadóttir og Guðlaug Mia Eyþórsdóttir
Kristín Karólína Helgadóttir og Guðlaug Mia Eyþórsdóttir Mynd/Úr einkasafni
„Tekið skal fram að verkin á sýningunni eru ekki við hæfi barna,“ segir Guðlaug Mia Eyþórsdóttir, einn stofnenda Gallerís Kunstschlager en á laugardaginn opnar sýningin Lostastundin í Galleríi Kunstschlager á Rauðarárstíg.

Guðlaug Mia er jafnframt sýningarstjóri Lostastundar, ásamt Kristínu Karólínu Helgadóttur.

„Kunstschlager fagnar sumrinu og tíma ástarinnar sem er að ganga í garð. Við ætlum að bjóða sýningargestum upp á lostafulla myndlist af hvers kyns toga,“ segir Guðlaug.

„Það er leynd yfir því hverjir það eru sem að sýna, en við getum gefið upp að á meðal annarra verða með verk á sýningunni þau Steingrímur Eyfjörð, Kristín Ómarsdóttir og Helgi Þórsson,“ segir Guðlaug og bætir við að erótík og list eigi vel saman og kominn sé tími til að setja upp sýningu sem þessa.

Í heildina verða fjórtán myndlistarmenn sem sýna erótísk verk í Kunstschlager. 

verk á sýningunni eftir steingrím eyfjörð
„Sumir þeirra eru þekktir fyrir slíka myndlist, aðrir ekki. Við leggjum áherslu á tvívíð verk á sýningunni. Þar kennir ýmissa grasa, og til sýnis verður allt frá skúffuerótík til hugmyndafræðilegra, erótískra verka,“ segir Guðlaug. 

Erótískt myndrit verður gefið út í tengslum við sýninguna með verkum eftir sýnendur auk annarra og verður til sölu á Basarnum, verslun í galleríinu. 

Sýningin er framlag Kunstschlager til Listahátíðar í Reykjavík í ár og opnar klukkan átta.

verk á sýningunni eftir kristínu ómarsdóttur





Fleiri fréttir

Sjá meira


×