Innlent

Lokuðust inni í tæpar fimm klukkustundir

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frá Vesturlandsvegi í morgun
Frá Vesturlandsvegi í morgun
Bílaröð á Vesturlandsvegi komst hvergi eftir að veginum var lokað snemma á níunda tímanum í morgun. Varlega áætlað voru hátt í eitt þúsund bílar fastir á Vesturlandsvegi við jaðar Grafarholts.

Tæplega fimm klukkustundir liðu frá því veginum var lokað þangað til greiða tókst úr flækjunni með aðstoð Björgunarsveitanna.

Sjálfboðaliðar frá sveitunum unnu þar óeigingjarnt starf við að leiðbeina fólki úr hremmingunum. Eftir að búið var að losa fasta bíla, fjarlægja tjónaða bíla og ryðja götur, gengu fulltrúar Landsbjargar í bílana til að leiðbeina ökumönnum um hvernig væri best að snúa aftur. Víkurvegur, vegurinn inn í Grafarvog frá Vesturlandsvegi, var áfram lokaður. Þá var æðum inn í Grafarholtið einnig lokað svo þeir sem þar búa komast tímabundið ekki til síns heima.

Veðurofsi og erfiðar aðstæður til aksturs, auk umferðaslysa á svæðinu, varð þess valdandi að loka þurfti Vesturlandsvegi í morgun við jaðar Grafarholtsins. Bílaruna stóð frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni að Reynisvatnsvegi við Grafarholt. Þá eru ótaldir bílarnir sem voru fastir í Grafarholtinu sjálfu og í hverfum Grafarvogs. Skyggni var 5 til 10 metrar þegar best lét.

Upplýsingar um veðurofsann, eða vísbendingar um hann, bárust það seint að mikill fjöldi sem hafði lagt af stað til vinnu fyrir átta í morgun var grandlaus um að hugsanlega væri mönnum hætta búin að ferðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×