Innlent

Lögreglumaður kærður fyrir gáleysislega hegðun á slysstað

Valur Grettisson skrifar
Lögreglumaður hefur verið kærður fyrir hegðun sína á slysstað.
Lögreglumaður hefur verið kærður fyrir hegðun sína á slysstað.

Ríkissaksóknari hefur hafið rannsókn á lögreglumanni sem er sakaður um að hafa afturkallað aðstoð neyðarlínunnar eftir að unnusta hans ók á barn. Það voru foreldrar barnsins sem kærðu.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari staðfestir í samtali við Vísi að málið hafi komið inn á þeirra borð fyrir um viku. Hann hefur falið fulltrúa sínum að rannsaka málið en embættið rannsakar lögregluna þegar svo ber við. Þá hefur embættið aðstöðu hjá lögregluskólanum til þess að rannsaka málið.

Það var DV sem greindi frá málinu í dag. Þar kemur fram að unnusta lögreglumannsins hafi ekið á barnið þannig það fór undir bílinn fyrir nokkrum vikum. Lögreglumaðurinn var með í för. Hann á að hafa hringt í neyðarlínuna og tilkynnt að hann hefði orðið vitni að óhappinu. Hann sagði hinsvegar ekki í samtali við neyðarvörð að unnustan hefði verið ökumaðurinn samkvæmt DV.

Nóttina eftir óhappið á barnið að hafa verið með uppköst og í ljós komið að það var með heilahristing.

Foreldrarnir kærðu lögreglumanninn fyrir um viku síðan fyrir kæruleysislega hegðun á slysstaðnum.

Lögreglumaðurinn mun áður hafa fengið tiltal frá lögreglunni. Þá einnig vegna unnustu hans sem ók drukkin. Aftur var lögreglumaðurinn með í för. Kollegar mannsins stöðvuðu konuna en lögreglumaðurinn reyndi að fá samstarfsmenn sína til þess að láta málið niður falla á vettvangi. Í kjölfarið fékk hann alvarlegt tiltal en ekki þótti ástæða til þess að víkja honum frá störfum samkvæmt DV.

Fram kemur í frétt DV að mikil ólga sé á meðal lögreglumanna vegna málsins. Margir eru óánægðir með að maðurinn sé enn að störfum.

Eins og fyrr segir er málið í rannsókn. Það er á frumstigi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×