Innlent

Lögreglan vildi ekki hneyksla almenning

Maðurinn er laus úr gæsluvarðhaldi.
Maðurinn er laus úr gæsluvarðhaldi.
Hæstiréttur felldi úr gildi í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni á þrítugsaldri sem var handtekinn á Leifsstöð með um 4 kg af fíkniefnum í ferðatösku. Lögreglan krafðist þess að maðurinn yrði í gæsluvarðhaldi til að særa ekki réttarvitund almennings og valda hneykslun í samfélaginu.

Maðurinn var handtekinn þann 22. desember 2010. Tollverðir fundu hart spjald innan við taufóður þar sem stokkar höfðu verið festir í töskuna - fullir af töflum sem reyndust innihalda MDMA. Samtals voru yfir 15.000 þúsund töflur í töskunni.

Ákærði játaði fyrir dómi að hafa flutt inn fíkniefnin fyrir mann sem hann neitaði að nafngreina. Hann sagðist ekki hafa verið þvingaður í innflutninginn - hann hafi verið atvinnulaus, vantað pening og gefið til kynna að hann væri „jákvæður fyrir einhverju svona".

Í rökstuðningi lögreglunnar fyrir því að maðurinn ætti að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í málinu kemur fram að í svipuðum málum hafi sakborningar alltaf afplánað hluta dómsins í gæsluvarðhaldi.

„Með tilliti til hagsmuna almennings þykir nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máls hans er til meðferðaren telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði hefur játað, gangi laus áður en máli lýkur með dómi, þá myndi það valda hneykslun í samfélaginu og særa réttarvitund almennings."

Hæstiréttur staðfesti ekki gæsluvarðhaldsúrskurðinn en Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði sératkvæði og vildi staðfesta úrskurðinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×