Innlent

Lögreglan rannsakar Deildu

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Baltasar Kormákur segir að niðurhalið muni á endanum eyðileggja íslenska kvikmyndagerð.
Baltasar Kormákur segir að niðurhalið muni á endanum eyðileggja íslenska kvikmyndagerð.
Auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ætlar að setja aukinn kraft í rannsókn sína á vefsíðunni Deildu.net eftir að eigandi hennar ákvað að heimila niðurhal á íslenskum kvikmyndum og þáttum. Notendum síðunnar stendur nú til boða að sækja sér tugi íslenskra kvikmynda og sjónvarpsþátta á netinu og eru nú fimm íslensk efni á topp tíu vinsældarlista síðunnar.

Í byrjun árs 2012 var starfsemi síðunnar kærð til lögreglu af Samtökum myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS) en ekkert hefur verið aðhafst í málinu. „Vefsíðan er vistuð erlendis, sem þyngir málið umtalsvert. Kynferðis- og fíkniefnabrotamál eru í forgangi hjá lögreglunni og því hefur rannsókn á auðgunarmálum eins og þessum tafist,“ segir Grímur Grímsson hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Grímur bendir þó á að málið sé litið alvarlegum augum og að mikilvægt sé að rannsaka starfsemi síðunnar nánar. Hann segir að ákvörðun eigenda Deildu.net muni setja aukinn kraft í rannsókn málsins og að mikilvægt sé að lögregla fari að ákveða til hvaða aðgerða skuli gripið.

Kvikmyndin Djúpið er í fyrsta sætinu á vinsældarlistanum á Deildu og í gær voru um 5.000 manns búnir að hala myndinni niður.

Baltasar Kormákur, leikstjóri myndarinnar, segist ekki skilja hvernig eigandi vefsíðunnar réttlætir ákvörðun sína. „Ég skil netið að mörgu leyti en ég get ekki skilið af hverju það er allt í einu orðið í lagi að stela eignum annarra.“ Baltasar telur að með þessu sé í raun búið að hafa af sér DVD-markaðinn að miklu leyti, en kvikmyndin á að koma út á DVD á þessu ári. „Ég velti því fyrir mér hvort þessum manni þætti í lagi ef ég myndi leigja út íbúðina hans eða bjóða fólki að vera þar.“

Baltasar bendir á að þó að þessi gjörningur hafi ekki hlutfallslega mikil áhrif á hann persónulega þá hafi þetta gríðarleg áhrif á íslenska kvikmyndagerð almennt. „Flestir sem gera kvikmyndir á Íslandi hafa beinar tekjur af sölu kvikmyndanna,“ segir Baltasar og bætir við að nauðsynlegt sé að finna lausn á málinu. „Þróun sem þessi á eftir að eyðileggja íslenska kvikmyndagerð á endanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×