Innlent

Löðrandi í bensíni með kveikjara í hönd: Af hverju gerið þið mér þetta

Mehdi Kavyanpoor
Mehdi Kavyanpoor
Íranski hælisleitandinn Mehdi Kavyanpoor segist hafa verið algerlega úrræðalaus og líf hans misst merkingu sína þegar hann reyndi að kveikja í sér í skrifstofum Rauða krossins fyrir rúmum tveimur vikum. Hann lauk nú á dögunum tveggja vikna öryggisvistun.

Mehdi Kavyanpoor segir sögu sína í nýjast hefti tímaritsins The Reykjavík Grapevine. Hann segist hafa misst alla von eftir að hafa getað ekki verið viðstaddur afmæli dóttur sinnar, sem hann hafði ekki séð frá því hún var ellefu ára gömul, í apríl síðastliðnum. Honum hafi verið lofað jákvæðu svari í janúar, en líkt og áður, hafi málið tafist í kerfinu.

Mehdi, fór líkt og frægt er orðið, í leigubíl upp í höfuðstöðvar Rauða krossins, með tvo bensínbrúsa meðferðis. Hann segist hafa ætlað að spyrja þann mann sem hefur með málefni hælisleitenda að gera hjá Rauða Krossinum, nokkurra spurninga. „Af hverju gerið þið mér þetta. Gefið mér svör, annars svara ég sjálfur," á Mehdi að hafa sagt með kveikjara í hvorri hendi, útataður bensíni.

Lögreglan kom á svæðið og yfirbugaði Mehdi áður en honum tókst ætlunarverk sitt. En atburðurinn hafði víðtæk áhrif og vakti mikla athygli í fjölmiðlum. Mehdi segir í viðtalinu að Íslendingar búi á lítilli, friðsælli eyju, og eigi erfitt með að setja sig inn í hugarheim þeirra sem komi frá stríðshrjáðum svæðum. Sjálfur er Mehdi frá Íran og vann við upplýsingaöflun fyrir ríkisstjórnina, en flúði eftir mistök i starfi sem kostuðu tvo samstarfsmenn hans lífið. Sjö ár eru síðan hann kom til Íslands og hefur mál hans þvælst um í kerfinu síðan þá.

„Ef líf þitt hefur enga merkingu þá er betra að fremja sjálfsmorð," segir Mehdi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×