Innlent

Lilja íhugar framboð til varaformanns

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra íhugar að bjóða sig fram til varaformanns í Framsóknarflokknum. Hún segist hafa fengið áskoranir, en hún hafi þó enn ekki tekið ákvörðun um framboð.

„Það kemur allt til greina þegar maður er í pólitík, en nú mun ég einbeita mér að því að ná góðu kjöri í Reykjavíkurkjördæmi suður,“ sagði Lilja í viðtali í Bítinu í morgun.

Lilja segist styðja núverandi forystu flokksins og mjög bjartsýn á að flokknum muni ganga vel. „Árangur ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili er óumdeildur. Ég held að þegar kosningabaráttan byrjar þá muni kjósendur horfa til þess. Við vitum hvað við höfum. Við vitum ekki hvað við fáum.“

Hún segir alls óvíst hvort verði kosið um formann í Framsóknarflokknum á þessari stundu. „Það hefur enginn sagst ætla að bjóða sig fram á móti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins,“ sagði Lilja.

Þetta er þó ekki allskostar rétt hjá Lilju þar sem Sveinbjörn Eyjólfsson, forstöðumaður Nautastöðvar Bændasamtakanna, hefur sagst munu bjóða sig fram til formennsku í flokknum, ákveði Sigurður Ingi að bjóða sig ekki fram gegn Sigmundi. Segist hann vilja tryggja að kosið verði um formann í flokknum á flokksþinginu sem fram fer 1 og 2. október næstkomandi.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur einnig sagst íhuga framboð til varaformanns í flokknum.


Tengdar fréttir

Í­hugar vara­for­manns­fram­boð

Gunnar Bragi Sveinsson segir að til greina komi að bjóða sig fram til varaformanns Framsóknarflokksins. Hann mun ekki styðja Sigurð Inga sem formann og telur rétt að Sigmundur Davíð verði áfram í forystu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×