Innlent

Lilja Alfreðsdóttir verður utanríkisráðherra

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Lilja Alfreðsdóttir verður utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Lilja Alfreðsdóttir verður utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. vísir/gva
Lilja Alfreðsdóttir verður utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem tekur við í dag og verður undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, verður sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, en nýtt ráðuneyti Sigurðar Inga verður að öðru leyti eins og ráðuneyti fráfarandi forsætisráðherra eftir því sem fréttastofa kemst næst.

Búið er að boða til ríkisráðsfunda á Bessastöðum í dag, annars vegar klukkan 14 og hins vegar klukkan 15. Á þeim fyrri mun ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar láta af störfum og á þeim síðari mun ráðuneyti Sigurðar Inga taka við.

Hver er Lilja Alfreðsdóttir?

Nýr utanríkisráðherra er alþjóðahagfræðingur að mennt. Hún hefur undanfarin ár starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Þá var hún ráðin tímabundið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, eða frá 2014 til 2015.

Sjá einnig: Svipmynd Markaðarins af Lilju Alfreðsdóttur

Lilja hefur unnið í Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 og starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá 2005. Einnig starfaði hún hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC frá 2010 til 2013. Hún er með meistaragráðu frá Columbia University í alþjóðahagfræði og BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Hún kom til starfa í forsætisráðuneytinu á grundvelli tímabundins vistaskiptasamnings við Seðlabanka Íslands og var í leyfi frá bankanum á meðan samningurinn varði.

Sjá einnig: Heimsýn orðin hornkerling í Framsóknarflokknum

Lilja er fædd 4.október 1973. Hún er gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, hagfræðingi í fjármálaráðuneytinu og eiga þau tvö börn. Hún hefur verið flokksbundinn framsóknarmaður um árabil og er dóttir Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum borgarfulltrúa flokksins og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.  Hún er mikið félagsmálatröll, og sat meðal annars í stjórn Evrópusamtakanna, en ver frítíma sínum oftast í bústað í eigu fjölskyldunnar í Biskupstungum.

Í svipmynd Markaðarins haustið 2014 þegar Lilja tók við sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu nefndi hún fjölskylduna sína, skokk og stangveiði sem áhugamál sín. Fimleikar komu einnig til tals og sú staðreynd að Lilja þjálfaði fimleika síðasta vetur.

„Svo finnst mér mjög gaman að lesa bækur. Ég var einmitt að klára bókina Flash Boys eftir Michael Lewis sem fjallar um verðbréfaviðskipti á Wall Street.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×