Innlent

Líkur á dræmri kjörsókn vegna EM

Sveinn Arnarson skrifar
Utankjörfundaratkvæði eru meðal annars greidd í Perlunni í Reykjavík.
Utankjörfundaratkvæði eru meðal annars greidd í Perlunni í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Svo gæti farið að kjörsókn verði í sögulegu lágmarki á morgun þegar þjóðin kýs nýjan forseta.

Margvíslegir aðskildir en samverkandi þættir geta haft áhrif á kjörsóknina sem hefur farið dvínandi síðustu ár. Til dæmis segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, að Evrópumótið í knattspyrnu sem og lítil spenna í kosningunum geti haft áhrif á kjörsóknina.

Grétar Þór er einn þeirra sem rannsakað hafa kjörsókn Íslendinga. „Íslendingar hafa ætíð sýnt mikla og góða kosningaþátttöku og hefur hún verið með því hæsta sem við þekkjum í hinum vestræna heimi. Samt sem áður hafa vísbendingar verið um að kjörsókn sé á niðurleið og hafa síðustu kosningar sýnt minni kjörsókn en við höfum átt að venjast,“ segir Grétar Þór. „Í sveitarstjórnarkosningunum 2014 var til að mynda sögulega léleg þátttaka eða rétt rúm 66 prósent.“

Grétar telur þessa þróun ekki stöðvast í kosningunum á morgun heldur telur hann líklegt að við sjáum kjörsókn undir 65 prósentum. „Síðustu vikur hefur lítil umræða farið fram um forsetakosningarnar miðað við oft áður. EM í knattspyrnu hefur haft þar vinninginn. Einnig eru gríðarlega margir sem eru annaðhvort að hugsa sér að fara til Frakklands eða þá eru þar nú þegar og hafa ekki kosið,“ segir Grétar Þór. „Það er einnig lítil spenna í kosningunum og einn maður verið með gríðarmikið forskot allt frá því að hann lýsti yfir framboði.“

Að mati Grétars er líklegt að ungir kjósendur séu ólíklegri til að fara á kjörstað að þessu sinni og kjósa. Einnig virðist það vera þannig að konur eru líklegri til að nýta atkvæðisrétt sinn en karlar. „Þó það hafi lítil áhrif á heildarúrslitin gæti það orðið til þess að Davíð nái öðru sætinu í þessum kosningum þar sem eldra fólk er meira á hans bandi en þeir sem yngri eru sem styðja þá Andra Snæ og Höllu. Það gæti verið spenna um hvar þau endi,“ segir Grétar Þór.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. júní




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×