Viðskipti innlent

Líkir ástandinu í Rússlandi við hrunið hér

Haraldur Guðmundsson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson segir starfsmenn Samherja hafa farið til Rússlands í síðustu viku til að ræða við viðskiptavini fyrirtækisins og fylgjast með ástandinu þar í landi.
Þorsteinn Már Baldvinsson segir starfsmenn Samherja hafa farið til Rússlands í síðustu viku til að ræða við viðskiptavini fyrirtækisins og fylgjast með ástandinu þar í landi. vísir
„Að sjálfsögðu er þetta ástand í Rússlandi ekki ósvipað og var hér á Íslandi í október 2008 og þetta hefur verið og verður áfram gríðarlega mikilvægur markaður fyrir okkur,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja.

Efnahagsástandið í Rússlandi hefur haft áhrif á útflutning Samherja á sjávarafurðum til landsins. Eins og kom fram í Fréttablaðinu síðasta miðvikudag þá hafa stórir fiskútflytjendur stöðvað útflutning sinn til Rússlands í kjölfar falls rúblunnar. Fyrirtæki þar í landi skulda íslenskum útflytjendum á bilinu þrjá til fimm milljarða króna fyrir uppsjávarfisk sem þau hafa þegar fengið afhentan.

Samherji sendi að sögn Þorsteins flutningaskip til Rússlands fyrir um tíu dögum, sem er væntanlegt þangað í byrjun næstu viku. Spurður hvort hann sé vongóður um að fyrirtækið fái útistandandi skuldir greiddar, segir Þorsteinn:

„Við erum, öll þessi fyrirtæki, í þessari stöðu og þetta er erfitt. En eins og ég segi þá erum við með flutningaskip sem kemur til Rússlands í næstu viku. Það er hins vegar minna magn en áætlanir gera ráð fyrir og þetta gengur allt hægar […] Aðstæður eru mjög erfiðar þarna, því er ekki að neita.“

Þorsteinn segir fyrirtækið eiga „töluvert“ af fiskbirgðum sem selja á inn á Rússlandsmarkað.


Tengdar fréttir

Rússar skulda íslenskum fiskútflytjendum milljarða króna

Framkvæmdastjóri Iceland Pelagic áætlar að rússnesk fyrirtæki skuldi íslenskum fiskútflytjendum þrjá til fimm milljarða króna fyrir vörur sem þau hafa þegar fengið afhentar. Mikil óvissa um hversu mikið fæst upp í skuldirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×