Innlent

Lífsstíllinn að drepa landann

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ótímabær dauði, örorka og sjúkdómar vegna mataræðis, hreyfingarleysis, reykinga og áfengisneyslu kosta íslenskt heilbrigðiskerfi ríflega hundrað milljarða á ári.
Ótímabær dauði, örorka og sjúkdómar vegna mataræðis, hreyfingarleysis, reykinga og áfengisneyslu kosta íslenskt heilbrigðiskerfi ríflega hundrað milljarða á ári. nordic photos/getty
Langvinnir og lífsstílstengdir sjúkdómar kosta heilbrigðiskerfið hundrað milljarða á ári og 60 þúsund góð æviár Íslendinga fara til spillis. Ótímabær dauði og örorka taka burt verðmæta þegna sem halda samfélaginu gangandi og skapa hagvöxt.



Stór hluti skerðingar, örorku og ótímabærra dauðsfalla á Íslandi stafar af afleiðingum langvinnra sjúkdóma sem tengjast lífsstíl nútímamannsins.

Óheilsusamlegt mataræði veldur mestum heilsufarsskaða á Íslandi í dag. Næst kemur ofþyngd, reykingar og háþrýstingur. Aðrir skaðlegir þættir tengdir lífsstíl eru starfstengd áhætta, hreyfingarleysi, há blóðfita, hár blóðsykur og áfengisneysla.

Talið er að sjúkdómar tengdir lífsstíl kosti heilbrigðiskerfið ríflega hundrað milljarða á ári eða um 70-80 prósent af því fjármagni sem fer til heilbrigðismála. Fyrir utan kostnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið missir þjóðfélagið verðmæta þegna. Aðeins tæplega helmingur landsmanna er í raun við vinnu á hinum almenna vinnumarkaði. En vegna ótímabærs dauða eða örorku missir samfélagið einnig fólk sem sinnir sjálfboðaliðastörfum, heimilisstörfum, barnauppeldi og öðrum störfum sem halda samfélaginu gangandi og skapa hagvöxt.

Íslenska þjóðin og heilbrigðiskerfið

Íslenska heilbrigðiskerfið kostaði 139 milljarða árið 2013.

2,6% af þeirri fjárhæð fór í forvarnir. 0,4% til forvarna utan heilbrigðiskerfisins.

70-80% kostnaðar kemur til vegna langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma.

69% þjóðarinnar er á vinnufærum aldri. 47% eru í raun við vinnu hverju sinni.

Íslendingar lifa lengi en verja að meðaltali 14 árum (17% ævinnar) við talsvert eða verulega skerta virkni.

17.000 eru á örorkulífeyri á Íslandi og hefur fjölgað þrefalt hraðar en almenn fólksfjölgun á landinu síðastliðin 15 ár. 



Lífsstílstengdir áhættuþættir:


  • Mataræði
  • Ofþyngd
  • Reykingar
  • Háþrýstingur
  • Starfstengd áhætta
  • Hreyfingarleysi
  • Há blóðfita
  • Hár blóðsykur
  • Áfengisneysla

Glötuð góð æviár Íslendinga á einu ári 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin notar mælikvarðann „glötuð góð æviár“ sem er samtala þeirra æviára sem glatast vegna ótímabærs dauða og örorku til skemmri eða lengri tíma.

Æviárin eru glötuð því fólk getur ekki tekið eðlilegan þátt í daglegu lífi eða á vinnumarkaði. Meðalævi á Íslandi er 86 ár. Ef manneskja fær sjúkdóm fertug og fer á örorku hefur hún glatað 46 góðum æviárum.

Heilsufarsskaðinn sem veldur glötuðum æviárum er yfirleitt tengdur langvinnum og lífsstílstengdum sjúkdómum sem eru þess eðlis að hægt væri að koma í veg fyrir þá, sporna gegn þeim eða að minnsta kosti lágmarka afleiðingar þeirra með forvörnum og fræðslu.

Ef glötuð æviár eru margfölduð með vergri landsframleiðslu á mann (5,7 milljónir árið 2013) er hægt að bregða upp þjóðhagslegum mælikvarða á heilsufarsskaðann og sjá af hve miklum hagvexti samfélagið verður.

Ótímabær dauði og æviár lifuð við örorku eða sjúkdóm á einu ári á Íslandi:

60.100 mannár | 342,6 milljarðar króna

Árin skiptast á eftirfarandi sjúkdóma: 


Kerfið þarf að koma í veg fyrir skaðann 



Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, segir megináherslu íslenska heilbrigðiskerfisins vera að bregðast við þeim skaða sem þegar er orðinn í stað þess að koma í veg fyrir hann. 139 milljarðar voru lagðir í íslenska heilbrigðiskerfið árið 2013 en eingöngu 2,6 prósent af þeirri fjárhæð fóru í forvarnir. Hann bendir á að með auknum forvörnum væri hægt að spara gríðarlega fjármuni. 

„Það má segja að við höfum náð eins langt og núverandi tækni og peningar leyfa í meðhöndlun sjúkdóma enda er lífaldur Íslendinga hár. Við erum mjög dugleg að halda fólki á lífi en eigum erfiðara með að koma í veg fyrir að langvinnir sjúkdómar vindi upp á sig og dæmi fólk úr leik.“ 

Viðbragðsdrifna heilbrigðiskerfið fær fertugfalt fjármagn á við forvarnadrifna kerfið. „Þetta er að mörgu leyti óeðlilegt þar sem stór hluti langvinnra sjúkdóma tengist lífsstíl sterkum böndum og hægt væri að koma í veg fyrir þá með markvissum forvörnum. Við gætum notað peninginn betur. Tökum sem dæmi sameiginlegt tryggingarfyrirtæki okkar allra, Sjúkratryggingar Íslands, sem borgar allan sjúkrakostnað. Stofnunin hefur engar heimildir til að fjárfesta í forvörnum til að takmarka sínar eigin útgreiðslur eins og öll önnur tryggingarfélög í heiminum gera.“

Guðmundur segir mikilvægt að líta á heilsufarsskaða á víðari grunni en aðeins dauðsföll og banvæna sjúkdóma því að í raun sé jafn stórum hluta æviára varið við skerðingu og örorku á Íslandi. 

„Við komumst ekki lengur upp með viðhorfið að heilbrigðiskerfið sé verkstæði sem geri við brotna og bilaða líkama og huga. Hagfræðin lítur á mannauð sem langtímafjárfestingu og við verðum að sinna viðhaldi til að halda fólkinu okkar heilbrigðu – að ekki sé nú talað um þá mannlegu þjáningu sem liggur að baki sjúkdómum og dauða.“

Þrjú stig forvarna: 

Koma í veg fyrir sjúkdóma

Fræða frá upphafi um heilbrigðan lífsstíl.

Dæmi: Skólabörnum er kennt að sneiða hjá sykri. Þau borða þ.a.l. minni sykur en kynslóð foreldranna. Hjartaáföllum, krabbameinum, sykursýki og offitutengdum stoðkerfissjúkdómum fækkar.



Stemma stigu við sjúkdómum

Grípa í taumana við upphaf sjúkdóms. Hafa eftirlitið betra og sjúklinga upplýsta.

Dæmi: Stoppa sykursýki áður en hún veldur frekari skaða eða hætta að reykja.



Endurhæfing

Grípa strax inn í eftir áfall með góðri endurhæfingu og koma fólki út í lífið aftur.

Dæmi: Hjartaendurhæfing á Reykjalundi eða meðferð við ofþyngd sem valdið hefur skertri starfsgetu.



Guðmundur bendir á dæmi um forvarnir

Setja samræmda forvarnastefnu sem hittir fyrir alla hópa þjóðfélagsins og á sem flestum stöðum sem þeir koma við á í lífinu.



Löggjafarvaldið: Sykurgjald samhliða aukinni fræðslu.

Ríkisstofnanir: Eftirfylgni með innihaldsefnum matvara og fæðubótarefna. Markaðssetning skráargatsmerkisins.

Sjúkratryggingar Íslands: Veita fé til forvarna.

Skipulagsyfirvöld: Gera einfaldara og öruggara að ganga og hjóla. 

Frjáls félagasamtök: Fræðslustarf, forvarnastarf og vitundarvakning meðal almennings.

Fjölmiðlar: Öflug miðlun ábyrgra upplýsinga og vönduð stefna við kynningu á heilsutengdum vörum og þjónustu.

Heilsugæslan: Reglubundnar skimanir vegna blóðþrýstings, blóðfitu og blóðsykurs.

Mæðravernd: Aukin áhersla á unga foreldra í áhættuhópum. 

Skólakerfið: Hollur matur í mötuneytum og aukin áhersla á hreyfingu – heilsueflandi skóli.

Viðskiptalífið: Umbuna starfsfólki fyrir að hjóla eða ganga til vinnu. 

Íþróttahreyfingin: Smurt brauð og vatn eða mjólk á íþróttamótum barnanna. Fjarlægja gos- og sælgætissjálfsalana. Siðareglur varðandi kostanir, t.d. „Pepsideildin“.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×