Viðskipti innlent

Liborvaxtasvindlið hafði áhrif á Íslandi

BBI skrifar
Bob Diamond, fyrrverandi forstjóri Barclays, sem sagði af sér í síðustu viku.
Bob Diamond, fyrrverandi forstjóri Barclays, sem sagði af sér í síðustu viku.
Vaxtasvindlið sem komst í hámæli í Bretlandi í síðustu viku hafði bein áhrif á Íslandi á margan hátt. Einna helst skipti það máli fyrir íslenska neytendur með gengistryggð lán.

Svindlið fólst í því að bankinn Barclays reyndi að hafa áhrif á svokallaða Libor-vexti. Fram hefur komið að allt frá árinu 2005 hefur bankinn að einhverju leyti reynt að hafa áhrif á vestina. Fyrir hrun gaf bankinn upp of háar tölur fyrir vextina en eftir hrun of lágar, til þess að auka trú á sér sem fjármálastofnun.

Gengistryggð lán á Íslandi tóku flest beinlínis mið af Libor-vöxtum áður en þau voru dæmd ólögmæt. Það þýðir að þau uxu í takt við gengi Libor-vaxtanna. Ekki hefur verið um neina stórkostlega skekkju að ræða en vegna svindlsins hafa menn verið að borga örlítið hærri vexti fyrir hrun en ella og lægri vexti eftir hrun. Ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um það hversu mikil áhrif inngrip Barclays hafði á Libor vextina.

Til að setja skekkjuna í skiljanlegt samhengi má ímynda sér 20 milljóna króna gengistryggt lán miðað við Libor-vexti. Ef Barklays hefur náð að hífa Libor-vextina upp um 0,01% skilar það sér í 2000 króna greiðslumun á ári. Ef bankinn hefur skekkt vextina um 0,1% þá er það 20 þúsund króna munur á ári. Ef skekkjan hefur farið upp í 0,5% þá munar það því 100 þúsund krónum á ári af 20 milljóna króna gengistryggðu láni.

Því blasir við að vaxtasvindlið hafði áhrif á íslenska neytendur síðustu ár. Rétt er að taka fram að þetta er ekki eina leiðin sem Libor-vaxta svindlið hafði áhrif á Íslandi enda eru Liborvextirnir ákveðinn hornsteinn í fjármálakerfum heimsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×