Innlent

Leikskólastarfsfólk ósammála um trúboð

Erla Hlynsdóttir skrifar

Skoðanir leikskólastarfsmanna á samstarfi við Þjóðkirkjuna eru afar mismunandi samkvæmt því sem kemur fram í skýrslu sem leik- og menntasvið borgarinnar vann um samstarfið.

„Persónulega finnst mér trúarfræðsla eiga að fara fram á heimili barnsins," segir einn starfsmaðurinn en í rannsókninni gafst þeim öllum færi á að bæta við svörum frá eigin brjósti auk þess að merka við á tilbúnum spurningalista.

„Við mættum vera duglegri að heimsækja kirkjuna," segir annar.

Sá þriðji tekur fram að kirkjan hafi boðið starfsfólki á námskeið einn laugardagsmorguninn og síðan upp á hádegisverð. „Þetta er til fyrirmyndar að mínu mati," segir hann í svari sínu í rannsókninni.

Enn einn lítur á trúarbrögð sem einkamál fólks og því eigi fræðsla um þau og innræting að vera í höndum foreldra. Þeir foreldrar sem kjósa að láta fræðsluna í hendur annarra geta hins vegar valið að senda börn sín í sunnudagaskóla eða annað kirkjustarf utan skóla.

Umrædd skýrsla liggur til grundvallar mótun samskiptareglna milli trúfélaga og skóla í borginni. Niðurstöður hennar voru birtar árið 2007.

Mannréttindaráð hefur nú lagt fram drög að ályktun um samskiptareglur á milli þessara aðila og eru drögin byggð á niðurstöðum skýrslunnar.

Prestar koma í meirihluta grunnskóla

Prestar Þjóðkirkjunnar heimsækja reglulega 63 prósent grunnskóla Reykjavíkurborgar. Rúm tíu prósent skólanna fá aðeins heimsókn frá prestum fyrir jólin, tæp þrjú prósenta aðeins fyrir jól og páska en helmingur grunnskólanna fá presta í heimsókn við hin ýmsu tilefni, meðal annars í tengslum við kristilegar hátíðir, fermingar eða áföll. Tæp 37 prósent grunnskóla fá aldrei heimsókn sóknarpresta.

Sóknarprestar heimsækja leikskóla borgarinnar öllu minna en tæp 67 prósent leikskóla fá aldrei heimsókn frá prestum Þjóðkirkjunnar. Þeir koma hins vegar mánaðarlega í rúm 17 prósent leikskólanna, fyrir jólin í 6 prósent þeirra en óreglulega í 8,6 prósent leikskóla.




Tengdar fréttir

80 prósent grunnskóla fara með börnin í kirkju

Tveir þriðju hlutar grunnskóla í Reykjavík senda börn heim með auglýsingar um kirkjulegt starf, svo sem bæklinga og önnur dreifibréf. Ellefu prósent leikskóla á vegum borgarinar gera slíkt hið sama.

Trúboð presta í leikskólum bannað

Meirihluti fulltrúa í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram drög að ályktun um samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög. Í drögunum er meðal annars gert ráð fyrir að fermingarfræðsla skuli fara fram utan skólatíma. Auk þess verða heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla óheimilar ef ályktunin verður samþykkt.

Trú og hefðir strokaðar út?

Meirihlutinn í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram drög að ályktun um samskipti leik- og grunnskóla borgarinnar við trúfélög. Ekki verður annað séð en að nái ýmsar tillögur sem þar er að finna fram að ganga, verði ýmsar gamlar og góðar hefðir í skólastarfinu afnumdar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×