Sport

Leik lokið: Ragna úr leik eftir hetjulega baráttu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Wembley Arena skrifar
Mynd/Valli
Badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir beið lægri hlut í tveimur lotum gegn Jie Yao frá Hollandi í tveimur lotum, 12-21 og 23-25, í F-riðli badmintonkeppni Ólympíuleikanna. Ragna hefur þar með lokið keppni á mótinu.

Um algjöran úrslitaleik Rögnu og Yao um sæti í 16-manna úrslitum var að ræða. Báðar höfðu unnið viðureign sína gegn Akvile Stapusaityte frá Litháen en aðeins efsta konan í hverjum riðli kemst áfram í úrslitakeppnina.

Yao náði strax undirtökunum í fyrstu lotunni en Ragna var þó aldrei langt undir. Í stöðunni 9-11, Yao í vil, skildu leiðir og sú hollenska landaði öruggum sigri í lotunni 21-11.

Allt annað var uppi á teningnum í annarri lotunni. Þá mætti Ragna ákveðin til leiks og eftir að hafa lent 1-3 undir tók hún frumkvæðið og hélt því allt þar til Yao komst yfir 18-17. Mikil spenna ríkti í lotunni sem þurfti að lengja því jafnt var á öllum tölum. Yao tryggði sér að lokum sigur með ás úr uppgjöf sinni og skaut um leið Rögnu úr keppninni.

Viðureign Rögnu og Yao var í beinni textalýsingu hér á Vísi. Viðtal við Rögnu er handan við hornið.

Smelltu á Refresh til að sjá nýjustu tíðindi frá blaðamanni Vísis á keppnisstaðnum.

Ragna - Yao 23-25 (0-2): Yao smassar eftir miðjum vellinum og Ragna missir af fokkunni. Fjórða matchpoint hjá Yao. Hún tekur það með langskoti. Hetjuleg barátta hjá Rögnu sem þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn.

Ragna - Yao 23-23 (0-1): Ragna reynir þverskot með bakhöndinni í fjærhornið en það er of langt. Yao fær þriðja matchpoint-ið sitt. En enn og aftur nær Ragna að svara - nú virkaði lauman.

Ragna - Yao 22-22 (0-1): Ragna heldur haus og klárar stigið með glæsibrag. Hún er að standast pressuna, því hún er gríðarlega mikil.

Ragna - Yao 21-22 (0-1): Ragna klikkar á laumunni og fokkan drífur ekki yfir. Yao fær annan séns.

Ragna - Yao 21-21 (0-1): Yao setur boltann yfir og Ragna fær tækifæri til að vinna. En hún setur fokkuna í netið.

Ragna - Yao 20-20 (0-1): Ragna fær þvílíkan stuðning í höllinni. Yao freistar þess að vinna með að skjóta langt en það er hársbreidd yfir línuna. Yao klikkar svo á smassi og það er jafnt!

Ragna - Yao 18-20 (0-1): Aftur of langur bolti hjá Rögnu. En hún heldur sér á lífi með því að dúndra á Yao sem nær ekki að svara. Ragna setur svo fokkuna framhjá eftir langt rallí og Yao er hársbreidd frá sigrinum.

Ragna - Yao 17-18 (0-1): Langt spil en Ragna lendir í vörn og skýtur út af. Ragna setur svo fokkuna í netið sem var óþarfi. Yao kemst því yfir í fyrsta sinn í langan tíma.

Ragna - Yao 17-16 (0-1): Flott lauma hjá Rögnu sem kemst yfir. Yao svarar með smassi sem Ragna nær ekki að verja. Yao setur svo boltann of langt og aftur kemst Ragna yfir.

Ragna - Yao 15-15 (0-1): Þrjú stig í röð hjá Yao og staðan er jöfn. Leikmenn eru að kafna úr hita og taka sér vatnspásu.

Ragna - Yao 15-14 (0-1): Nú er skipst á stigum. Of stutt uppgjöf hjá Yao. Ragna setur svo boltann í netið í laumu. Svo of langt og munurinn orðinn eitt stig.

Ragna - Yao 13-11 (0-1): Ragna lætur vita af sér og vinnur tvö stig í röð. Æsispennandi.

Ragna - Yao 11-11 (0-1): Yao virðist ætla að taka völdin eftir pásuna, alveg eins og áðan.

Ragna - Yao 11-8 (0-1): Frábær stemning. Íslenski hópurinn í stúkunni kemur af stað bylgju í pásunni. Líklega eina bylgjan sem sést hefur í badmintonhöllinni á leikunum.

Ragna - Yao 11-8 (0-1): Þrátt fyrir að hafa lent aftur í smá mótlæti og misst einbeitinguna í smástund hélt hún haus og forystunni. Afar vel spilað og sú hollenska er í vandræðum.

Ragna - Yao 9-4 (0-1): Frábærir taktar hjá Rögnu sem er að spila yfirvegað og vel. Hún ver studd af áhorfendum sem eru enn þó nokkuð margir í höllinni.

Ragna - Yao 6-3 (0-1): Fimm stig í röð hjá Rögnu sem er að þvinga Yao í löng skot sem enda utan vallar.

Ragna - Yao 4-3 (0-1): Þrjú góð stig frá Rögnu sem neitar að gefast upp. Yao spilar langt í vörn en skýtur yfir.

Ragna - Yao 1-3 (0-1): Ragna fær umdeilt stig þar sem Yao lét fokku fara sem hún taldi vera úti. En hún var dæmd inni og Ragna fékk stigið. Yao svaraði með því að vinna næstu tvö stig.

Ragna - Yao 11-21 (0-1): Ragna setur fokkuna of langt og Yao vinnur fyrstu lotuna. Þetta var erfitt eftir hléið en Ragna fær nú annað tækifæri til að koma sér aftur inn í leikinn.

Ragna - Yao 11-20: Ragna nær að svara en það er ekki nóg. Það er mjög heitt í höllinni og leikmenn taka sér langar pásur á milli stiga.

Ragna - Yao 10-17: Sárt stig að tapa. Þetta var langur sprettur þar sem báðar vörðust vel en Yao náði á endanum að sprengja Rögnu.

Ragna - Yao 10-15: Nokkur slæm stig í röð og Yao er komin með undirtökin í leiknum.

Ragna - Yao 9-11: Yao setur Rögnu undir pressu í síðasta stiginu og okkar kona setur fokkuna í netið. Hún er þá enn í góðum málum og verður nú að passa að missa Yao ekki of langt frá sér.

Ragna - Yao 8-9: Meiri kraftur í viðureigninni núna og þar er Ragna öflug. Er komin á fínt skrið.

Ragna - Yao 6-8: Ragna svarar í sömu mynt og lætur Yao setja boltann í netið í tvígang.

Ragna - Yao 4-8: Yao er dugleg að lauma yfir í fjærhornið og Ragna á í erfiðleikum upp við netið.

Ragna - Yao 3-4: Ragna kemst fljótt á blað og minnkar muninn í eitt stig.

Ragna - Yao 0-2: Ragna skýtur út fyrir og Yao fær fyrsta stigið. Hún klikkar svo á laumu og kemst 2-0 undir.

21.12: Ragna byrjar sömu megin og í gær - spurning hvernig vindurinn er í höllinni.

21.11: Öllum viðureignum kvöldsins lokið nema hjá Rögnu og Yao. Margir áhorfendur ákveða að fara en einhver slatti situr áfram.

21.10: Stelpurnar eru nú að hita upp. Ragna er aftur í sínum bláa búningi en Yao í svörtum og appelsínugulum. Yao er í 20. sæti heimslistans og raðað inn sem 14. sterkasta keppanda mótsins. Ragna er í 81. sæti. Þetta er hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum og sæti í 16-manna úrslitum.

21.07: Þetta tók alls 40 mínútur og seinkun á viðureign Rögnu upp á um 75 mínútur. Ragna er nú kölluð inn á völlinn.

21.05: Þá er þetta loksins búið. Suður-Kórea „vann", 21-12, og mætir því kínverska parinu í 8-liða úrslitum. Þvílíkur farsi. Þær suður-kóresku labba hnípnar af velli enda minnkuðu líkur þeirra á verðlaunapening til muna með þessu. Ótrúlegt að keppnisfyrirkomulagið skyldi bjóða upp á þetta rugl.

21.03: Byrjað aftur og nú 18-12 fyrir Suður-Kóreu. Yfirdómarinn þurfti að koma aftur inn á völlinn og skikka leikmenn til að halda áfram.

21.00: Suður-Kóreska parið er nú á krísufundið - vegna þess að þær eru að vinna, 16-8. Þær vita ekkert hvað þær eiga að gera. „Play," segir dómarinn en ekkert gerist.

20.58: Staðan nú 15-8, Suður-Kóreu í vil. Ætla Suður-Kóreumenn bara að sætta sig við þetta?

20.52: Nú er keppni lokið á velli 2, þar sem Ragna keppti í gær. Hún á að keppa á velli 3 í kvöld en spurning hvort hún verði færð yfir á völl sem er laus. Nú er klukkutími síðan hennar viðureign átti að byrja. Staðan í ruglviðureigninni er 5-3 fyrir Indónesíu (lesist: Suður-Kóreu).

20.48: Annarri lotu lokið með öruggum sigri Suður-Kóreukvenna, 21-14. Nú byrjar ballið.

20.43: Parið frá Suður-Kóreu er nú að leika sér að því að vinna lotuna. 13-8. Oddalotan ætti að verða afar athyglisverð.

20.37: Undir aðalmyndinni með þessari frétt ættu nú að vera komnar myndir af viðureigninni sem hvorugt liðið vill tapa. Valgarður Gíslason ljósmyndari tók þær. Ef þú sérð þær ekki prófaðu að halda inni CTRL-takkanum og ýta á F5 á lyklaborðinu.

20.32: Þá er fyrstu lotu lokið með „sigri" Indónesanna, 21-18. Þetta var ótrúlegt - keppendurnir voru í raun að bjarga skotum sem voru augljóslega á leið út af. Svo þegar þau settu boltann í eigið net (algjörlega viljandi) þóttust þau vera rosalega svekkt út í sjálfan sig fyrir að spila svona illa. Ótrúlegt.

20.26: „Off, off, off, off," öskra áhorfendur í höllinni. Yfirdómari kom inn á völlinn og sýndi keppendum blátt eða svart spjald, sama hvað það þýðir. Áhorfendur fögnuðu en viðureignin er komin aftur af stað. Staðan er 15-14 fyrir suður-kóreska parinu sem mætir pari frá Indónesíu.

20.21: Áhugasamir geta lesið sig um þetta hér. Þetta er semsagt úrslitaviðureign í C-riðli en liðið sem C1 mætir er besta par heims í tvíliðaleik kvenna (sem tapaði líka viljandi vegna þess að næstbesta par heims, líka kínverskt, tapaði óvænt sinni viðureign). Það er því betra að vera í öðru sæti C-riðils.

20.15: Þetta er nú meira ruglið. Á vellinum hennar Rögnu eigast nú við tvö lið í tvíliðaleik kvenna sem bæði vilja tapa. Já - bæði lið vilja tapa. Tapliðið sleppur nefnilega við að mæta sterkasta liði heims (frá Kína) í fjórðungsúrslitum. Liðin eru því bara að leika sér að því að tapa stigum á víxl. Dómarar eru ekki ánægðir og hafa kallað þjálfarana inn á völlinn til að ítreka að liðin eigi að gera sitt besta, samkvæmt Ólympíuandanum.

20.03: Búið. 21-16 fyrir Þjóðverjanum eftir að Úkraínumaðurinn gaf honum sigurinn með algjöru kæruleysi og klaufaskap. Þjóðverjinn spilaði bara stutt á hann og Úkraínumaðurinn setti fokkuna alltaf í netið. En nú styttist í að viðureignin sem átti að byrja klukkan 19.19 geti hafist.

20.00: Það er hörkubarátta á vellinum hennar Rögnu. Oddalota í einliðaleik karla þar sem við eigast Þjóðverji og Úkraínumaður. Er það um sigurinn í riðlinum og staðan nú 18-16, Þjóðverjanum í vil.

19.48: Rétt eins og í gær er hitinn hérna inni nánast óbærilegur og er það vegna þess að loftkælingin má ekki vera á fullum krafti, þar sem það myndi trufla flug fokkunnar of mikið. Vindurinn hefur þó einhver áhrif á vellinum, sagði Ragna í gær.

19.31: Það er í raun ómögulegt að segja hvenær Ragna byrjar. Síðasta viðureignin á undan Rögnu átti að byrja klukkan 19.19 en er ekki enn hafinn þar sem enn er verið að klára leikinn á undan. Það stefnir í oddalotu þar og því líklegt að þetta tefjist eitthvað verulega.

19.30: Áætlað er að leikurinn hefjist klukkan 19.54 en það mun mjög líklega tefjast eitthvað þar sem viðureignir á sama velli hafa tekið lengri tíma en áætlað var. Slíkt var tilfellið í gær og byrjaði Ragna að spila þá um 40 mínútum eftir áætlun.

19.30: „Hún er fædd og uppalin í Kína og spilaði með landsliðinu þar áður en hún fór til Hollands. Við höfum aldrei spilað áður en hún hefur séð mig margoft og þekkir mig vel. Hún les andstæðinga sína vel og er gríðarlega reynd," sagði Ragna um Yao. „En hún er orðin 34 ára gömul og því aðeins farið að hægja á henni. Hún hefur þar að auki aldrei keppt á Ólympíuleikum og því pressa á henni að standa sig vel. En ég hef engu að tapa og ætla að spila þannig gegn henni."

19.30: Ragna vann í gær glæsilegan sigur á Akvile Stapusaityte frá Litháen í gær í tveimur lotum. Andstæðingur hennar í kvöld, Jie Yao, vann þá litháísku á sunnudag með svipuðum mun. Yao er þó mun ofar á heimslistanum en Ragna og telst því sigurstranglegri í kvöld. En það getur allt gerst á Ólympíuleikum, svo mikið er víst.

19.30: Velkomin til leiks hér í Wembley Arena þar sem fylgst verður með síðari viðureign Rögnu í F-riðli. Ef hún vinnur andstæðing sinn í kvöld kemst hún áfram í 16-manna úrslitin. Tap þýðir að hún er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×