Skoðun

Leigumarkaður frá helvíti

Auður Alfa Ólafsdóttir skrifar
Stærsta hagsmunamál almennings í dag er að lækka þann kostnað sem fer í húsnæði í mánuði hverjum. Eins og staðan er í dag er alltof hátt hlutfall ráðstöfunartekna að fara í húsnæðiskostnað sem gerir það að verkum að lítið er eftir af tekjum margra hver mánaðamót eftir að hafa borgað af húsnæði. Af tveimur slæmum kostum virðist skárra að kaupa sér fasteign og borga af henni en að vera á leigumarkaði enda er leiga í dag yfirgengilega há hvert sem leitað er. Vissulega þarf að vera möguleiki fyrir fólk að kaupa sér húsnæði og við eigum eftir fremsta megni að reyna að auðvelda það fyrir fólki. Við þurfum hinsvegar líka og ekki síður að búa þannig um málin að hér sé starfræktur heilbrigður leigumarkaður þar sem fólk þurfi ekki að punga aleigunni út hver mánaðamót til að hafa skjól yfir höfuðið.

Það eru allltaf ákveðnir hópar sem koma til með að vera á leigumarkaði. Sumir gætu hugsað sér að eignast húsnæði seinna meir en kjósa að vera á leigumarkaði tímabundið vegna náms eða annarra aðstæðna sem kalla á að hægt sé að flytja með litlum fyrirvara. Öðrum gæti þótt það kostur að geta flakkað á milli hverfa og prufað að búa í mismunandi íbúðum, jafnvel í mismunandi bæjarfélögum yfir ævina eða gætu hugsað sér að flytja til útlanda seinna meir og þá þvælist fasteign bara fyrir. Þá eru það þeir sem hafa einfaldlega ekki tök á að kaupa sér fasteign og eiga erfitt með að safna sér fyrir útborgun, njóta ekki lánstraust eða standast ekki greiðslumat. Að lokum ber að nefna að tímarnir hafa breyst og þarfir og draumar fólks með. Mikið af fólki í dag vill heldur fjárfesta í upplifunum, safna sér allskonar reynslu í reynslubankann og ferðast frekar en að fjárfesta í steinsteypuklumpi.

Fyrir mitt leyti væri ég ekki að hugleiða að kaupa fasteign nema til þess að flýja það helvíti sem þessi leigumarkaður er. Fólk þarf að eiga raunverulegt val á milli þess að vera á leigumarkaði og að kaupa sér fasteign en ekki vera þvingað í að kaupa fasteign til þess eins að flýja leigumarkaðinn. Eins og staðan er núna er hvort tveggja ómögulegt fyrir stóran hóp fólks og það þarf að laga.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×