Erlent

Leiðtogafundur um málefni Úkraínu í janúar

Atli Ísleifsson skrifar
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti.
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti. Vísir/AP
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti greindi frá því fyrr í dag að hann myndi eiga fund með leiðtogum Rússlands, Frakklands og Þýskalands í janúar til að vinna að lausn mála í austurhluta Úkraínu.

Pórósjenkó viðurkenndi að úkraínsk stjórnvöld skorti sem stendur hernaðarlegar bjargir til að ná austurhluta landsins aftur á sitt vald, en aðskilnaðarsinnar á bandi Rússlandsstjórnar ráða nú yfir stórum landsvæðum þar.

Í frétt Reuters kemur fram að Pórósjenkó sagðist einnig hafa rætt við Barack Obama Bandaríkjaforseta um möguleikann á að hann myndi einnig sækja fundinn. „Það mikilvægasta er að umbreyta viðkvæmu vopnahléi í stöðugan frið og ná hernumdum svæðum aftur undir stjórn úkraínskra stjórnvalda.“

Úkraínuforsetinn sagðist munu funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara, Francois Hollande Frakkandsforseta og Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Astana, höfuðborg Kasakstans, þann 15. janúar.

Sagði hann að ekki yrðu gerðar málamyndanir varðandi fullveldi landsins og að úkraínsk stjórnvöld vildu landsvæðin í austurhluta landsins, auk Krímskaga, sem Rússland innlimaði í mars síðastliðinn, aftur undir sína stjórn. Hernaðarleg lausn væri hins vegar ekki möguleg. „Við erum ekki með bjargir til að hefja sókn núna.“

4.700 manns hafa látist í átökum úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna frá því í apríl síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×