Erlent

Leggja niður vopn en sleppa við fangelsi

guðsteinn bjarnason skrifar
Íbúar Kólumbíu fylgdust með beinni útsendingu frá Havana á Kúbu þegar samningarnir voru undirritaðir.
Íbúar Kólumbíu fylgdust með beinni útsendingu frá Havana á Kúbu þegar samningarnir voru undirritaðir. Fréttablaðið/EPA
„Stríðinu er lokið,“ sagði Humberto de la Galle, samningafulltrúi Kólumbíustjórnar, þegar hann undirritaði friðarsamkomulag við FARC-skæruliðahreyfinguna.

Stjórnin hefur í meira en hálfa öld átt í stríði við FARC-hreyfinguna. Átökin hafa kostað meira en 200 þúsund manns lífið. Milljónir manna hafa hrakist að heiman vegna þeirra og fjölmargir verið teknir í gíslingu um lengri eða skemmri hríð.

Átök milli FARC-hreyfingarinnar og stjórnvalda í Kólumbíu hafa staðið í ríflega hálfa öld.
„Það er kominn tími til að gefa friðnum tækifæri,“ sagði de la Galle.

Samningarnir voru undirritaðir á Kúbu, að viðstöddum fulltrúum Kúbustjórnar og fulltrúum frá Noregi, sem hefur haft milligöngu um samningaviðræðurnar síðustu fjögur árin.

Við undirritun samninganna sagði Ivan Marquez, aðalsamningamaður FARC-hreyfingarinnar, sigur vera unninn í fegursta bardaga allra bardaga, nefnilega baráttunni fyrir friði í Kólumbíu: „Vopnaðri baráttu lýkur og barátta hugmyndanna hefst,“ sagði hann.

Til þess að samningurinn taki gildi þarf að samþykkja hann í þjóðar­atkvæðagreiðslu, sem haldin verður 2. október.

„Þetta verða mikilvægustu kosningarnar í lífi okkar,“ sagði Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu.

Ekki eru þó allir sáttir. Alvaro Uribe, fyrrverandi forseti Kólumbíu, segir samninginn í raun gefa FARC-hreyfingunni landið. Hann hvetur kjósendur til þess að hafna samninginum.

„Það tók þau fjögur ár að afhenda FARC allt heila klabbið,“ hefur breska dagblaðið The Guardian eftir Ernesto Macaias, flokksbróður Uribes. „Þau hefðu getað gert það á einum degi.“

Samningarnir fela í sér skaðabætur til fórnarlamba hreyfingarinnar. Einnig verða settir upp sérstakir dómstólar til að fjalla um afbrot liðsmanna hennar. Þeir sem játa afbrot sín sleppa við fangelsisdóm en þurfa að sinna samfélagsþjónustu í staðinn.

Þá samþykkti Kólumbíustjórn að hefja þróunarvinnu og uppbyggingu í landbúnaðargeiranum, ásamt því að auðvelda smærri samtökum þátttöku í stjórnmálum.

Á móti heitir FARC-hreyfingin því að leggja niður fíkniefnaframleiðslu sína og leysa upp fíkniefnasölukerfið, sem hefur verið helsta tekjulind hennar í áratugi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×