Innlent

Lega Skaftár talsvert breytt eftir hlaupið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Brúin hefur verið lokuð.
Brúin hefur verið lokuð. vísir/kmu

Þrátt fyrir að Skaftárhlaupið hafi náð hámarki sínu fyrir þremur dögum er vatnsflaumurinn enn gífurlegur. Þegar rennslið var sem mest var það tæpir 3000 rúmmetrar á sekúndu en er nú um einn sjöundi af því.

Á stöku kafla á þjóðvegi eitt er vatn beggja megin vegarins. Eins gott er að bílar fari ekki út af veginum því þar sem vatnið er dýpst er það rúmur tugur metra. Framburður er mikill og eru bændur uggandi yfir því hvað bíður þeirra þegar minnkar í ánni.

„Ég hef náð að kíkja á hluta af þessu og þetta er gífurlegt landbrot og ofboðslegur framburður,“ segir Gísli Magnússon bóndi á Ytri-Ásum. „Ég skoðaði svæði þar sem áður var hraun og núna er þar víða ekkert hraun lengur. Það er orðið slétt af sandi og leðju. Síðan mun þetta þorna og fjúka hérna yfir okkur með endalausum rykmekki. Það verður að sá í þetta um leið og hægt er.“

Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, var við Skaftá í dag. Síðastliðinn fimmtudag var hann staddur á bakkanum og flutti fréttir þaðan en nú var ómögulegt að vera staddur á sama stað þar sem bakkinn sem hann stóð á var horfinn. Brúin yfir Eldvatn á Ásum er enn lokuð og verður það þar til hægt verður að laga hana, ef það verður hægt að laga hana.

Svipmyndir frá Skaftárbökkum má sjá í klippunni í fréttinni en þar lýsir Kristján Már meðal annars hvernig umhorfs var á svæðinu áður en hlaupið varð.


Tengdar fréttir

Möguleiki að brúin fari í hlaupinu

Óttast er að brúin yfir Eldvatn við Ása geti farið í hlaupinu í Skaftá. Henni var lokað um miðjan dag í gær vegna hættu sem skapaðist. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að verulega hafi dregið úr rennsli árinnar. Það sé þó enn mikið og því hætta á að undurstöður brúarinnar gefi sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×