Erlent

Lausna á ágreiningi leitað á síðustu stundu

guðsteinn bjarnason skrifar
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Rússlands, Þýskalands, Frakklands og Kína á fundi í Lausanne í gær.
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Rússlands, Þýskalands, Frakklands og Kína á fundi í Lausanne í gær. Nordicphotos/AFP
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, hefur undanfarna daga setið á fundum í Genf með fulltrúum sex valdamikilla ríkja sem hafa árum saman reynt að fá Írana til að sýna fram á það með óyggjandi hætti að þeir ætli sér ekki að smíða kjarnorkuvopn.

Íranar hafa jafn lengi staðið fastir á því að þeir ætli sér alls ekki að smíða kjarnorkuvopn, en segjast jafnframt hafa sama rétt og aðrar þjóðir til þess að nýta sér kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.

Undanfarna mánuði hefur verið stefnt að því að pólitískt samkomulag liggi fyrir í dag, en tæknileg útfærsla verði svo tilbúin fyrir lok júní.

Í gær mættu til leiks utanríkisráðherrar ríkjanna sex í von um að þeim takist að komast að samkomulagi á síðustu stundu.

Íranar krefjast þess að refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna verði aflétt, en óljóst er enn nákvæmlega hvað þeir vilja bjóða í staðinn.

Á fréttasíðu breska útvarpsins BBC er haft eftir vestrænum embættismanni, sem tekið hefur þátt í fundunum, að nú standi einkum á þremur atriðum.

Meðal annars virðist ágreiningur vera um það hvort þeim ströngu hömlum, sem lagðar yrðu á kjarnorkustarfsemi Írans í tíu ár, verði aflétt á einu bretti eftir þann tíma eða hvort þeim verði aflétt smám saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×