Skoðun

Laun og skuldir í sömu mynt

Magnús Orri Schram skrifar

Stjórnmálamenn eiga jafnt að takast á við málefni líðandi stundar, sem og að marka stefnu til framtíðar. Sjaldan er meiri þörf á skýrri framtíðarsýn en einmitt þegar gengið er í gegnum erfiðleika. Langtímamarkmið okkar er að hér verði mögulegt að búa áfram og það er hlutverk stjórnmálamanna að skapa skilyrði og umhverfi til að svo megi verða.

Stærsta álitaefnið í því sambandi er líklega það hvort almenningur á Íslandi fái sanngjörn laun fyrir sína vinnu eða viljum við áfram búa almenningi þann veruleika að tvær myntir séu í landinu - þ.e. launakrónan í launa­umslaginu og verðtryggða krónan í glugga­umslaginu? Það var sveiflan á milli þessara tveggja mynta sem orsakaði eignatjón almennings haustið 2008. Ef við ráðumst ekki að rót þessa vanda, er ekkert því til fyrirstöðu að við bjóðum börnunum okkar uppá sama óréttlætið eftir 10-15 ár og við höfum nú upplifað.

Stærstur hluti erfiðleika íslenskra fyrirtækja og heimila snýst ekki um hrun bankakerfisins heldur miklu fremur um sveiflur í gengi erlendra mynta, launakrónu og verðtryggðar krónu. Ríkið tók á sig mikið högg vegna hruns bankanna en tókst með neyðarlögunum að minnka það tjón og senda reikninginn að einhverju leyti til erlenda kröfuhafa. Tjón almennings er hins vegar miklu fremur tengt gengi krónunnar og því verðbólguskoti sem varð því samfara. Þannig hitti hrun launakrónunnar íslensk heimili miklu verr en banka­hrunið. Íslendingar upplifa bæði banka- og myntkreppu, þegar önnur lönd glíma bara við bankakreppu. Sem dæmi hefur írskur almenningur ekki lent í stórkostlegu eignatjóni enda eru laun þeirra og skuldir í sömu myntinni.

Stjórnmálamenn eiga að skapa skilyrði og umhverfi til að fólk vilji búa hér áfram. Sumir stjórnmálamenn hafa lagt á það áherslu að framtíð íslenskra neytenda, íslenskra skuldara og íslenskra launamanna sé best borgið í myntsamstarfi við vinaþjóðir í Evrópu. Aðrir stjórnmálamenn hafa ekki lagt fram neina framtíðarsýn í þessum efnum. Nú er komið að almenningi að standa með sjálfum sér og krefjast breytinga. Íslenskur almenningur á skilið að laun og skuldir séu í sömu myntinni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×