Innlent

Látinn í íbúð sinni í Reykjavík í tvo mánuði

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Rúmlega fertugur karlmaður fannst látinn í íbúð sinni í fjölbýlishúsi í Reykjavík í gær. Talið er að maðurinn hafi verið látinn í allt að tvo mánuði áður en hann fannst. Lögreglan segir sjaldgæft að mál eins og þetta komi upp.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til að fjölbýlishúsi í Laugarneshverfinu í gær. Þá hafði aðstandandi mannsins farið inn í íbúið hans og fundið hann þar látinn. Ekki er talið að dauða mannsins hafi borið að með saknæmum hætti en hann bjó einn.

Nágrannar mannsins höfðu samband við systkini hans eftir að lykt tók að berast frá íbúðinni. Þá hafði safnast töluvert magn af pósti fyrir í póstkassa hans. Talið er að maðurinn hafi verið látinn í íbúðinni í um tvo mánuði áður en hann fannst.

Í samtali við fréttastofu í dag sagði Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sjaldgæft að mál sem þessi komi upp þar sem fólk hafi verið látið í langan tíma í heimahúsið áður en það finnst.



Níu íbúðir eru í húsinu þar sem maðurinn bjó. Nágrannar mannsins sem að fréttastofa ræddi við í dag eru slegnir. Þeir bera honum vel söguna og segja manninn hafa verið indælan en mikinn einfara.

Síðustu vikur hafi lykt tekið að berast um ganga hússins en í fyrstu hafi þeir ekki áttað sig á hvaðan hún kæmi. Fyrir helgina töldu þeir líklegast að hún kæmi úr íbúð mannsins og þar sem hann svaraði ekki var ákveðið að hafa samband við systkini hans sem kom á staðinn og kallaði til lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×