Fótbolti

Lars: Sumir þeirra sem hafa spilað minna fá tækifæri gegn Belgíu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. vísir/getty
Næsta stóra verkefni íslenska landsliðsins í fótbolta, besta landsliðs Norðurlanda, er leikur gegn Tékklandi í undankeppni EM 2016.

Leikurinn fer fram í Plzen sunnudaginn 16. nóvember, en þar mætast tvö efstu lið A-riðils. Bæði Ísland og Tékkland eru með níu stig eða fullt hús eftir þrjá leiki.

„Við erum á fullu að skoða tékkneska liðið, en við þurfum að setja upp okkar leik svakalega vel. Það er mikið sem þarf að gera og við erum að fylgjast með leikmönnunum okkar líka,“ segir Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, í samtali við Vísi.

Áður en kemur að leiknum gegn Tékklandi mæta strákarnir okkar stórliði Belgíu í vináttuleik á Stade Roi Baudoin í Brussel miðvikudaginn 12. nóvember.

Landsliðsþjálfararnir vilja vitaskuld hafa bestu og mikilvægustu leikmenn íslenska liðsins heila og ferska fyrir leikinn gegn Tékkum þannig ekki allir þeirra munu koma við sögu gegn Belgíu.

„Hverjir spila leikinn fer eftir því hvað leikmennirnir spila mikið hjá sínum félagsliðum í aðdraganda leikjanna. Það er eitthvað sem við þurfum að fylgjast með. Ef það er einhver sem er kannski smá meiddur eða hefur verið að spila mikið takmörkum við spiltíma viðkomandi gegn Belgíu,“ sagði Lars.

„Þetta verður smá blanda af leikmönnum sem hafa fengið færri tækifæri í fyrstu þremur leikjum undankeppninnar og þeirra sem hafa verið að spila meira,“ segir Lars Lagerbäck.


Tengdar fréttir

Vorum verstir á Norðurlöndunum í júní 2012 en nú erum við bestir

Íslenska fótboltalandsliðið hækkaði sig um sex sæti á nýjum styrkleikalista FIFA og hefur farið upp um 76 sæti á listanum síðan Lars Lagerbäck tók við því fyrir 34 mánuðum. Ísland er nú í 28. sæti listans og ofar en allar hinar Norðurlandaþjóðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×