Viðskipti innlent

Lánshæfi Landsvirkjunar veikist

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Þó skuldastaða Landsvirkjunar hafi batnað þá veikist lánshæfi þeirra í takt við neikvæðara lánshæfi Ríkissjóðs Íslands.
Þó skuldastaða Landsvirkjunar hafi batnað þá veikist lánshæfi þeirra í takt við neikvæðara lánshæfi Ríkissjóðs Íslands.
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard and Poor"s hefur breytt horfum á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr stöðugum í neikvæðar.

Matsfyrirtækið segir breytinguna mega rekja til breytingu á horfum á lánshæfi Ríkissjóðs Ísland, sem átti sér stað þann þann 26. júlí síðastliðinn, en allar skuldir Landsvirkjunar eru með ríkisábyrgð.

Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, segir breytinguna hafa takmörkuð áhrif á fyrirtækið að svo stöddu. „Enn á eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta hefur á lánshæfiseinkunn á endanum og er Landsvirkjun ekki að sækja sér mikið fé eins og er,“ segir Rafnar en bætir við að auðvitað sé aldrei gott þegar horfur breytast og lánshæfi veikist.

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að lækka skuldir sínar og takmarka útgjöld. Í kjölfarið hefur efnahagsleg staða félagsins batnað sem hefur jákvæð áhrif á grunnlánshæfi Landsvirkjunar.

„Efnahagsleg staða Landsvirkjunar hefur áhrif á grunnlánshæfiseinkunn félagsins, en það er enn vegur að fara áður en staðan verður góð. Ríkisábyrgð á skuldum fyrirtækisins hækkar því endanlegt lánshæfismat. Áhrif ríkissjóðs á Landsvirkjun er því frekar til þess að hífa einkunn fyrirtækisins upp, þó að nú hafi horfur versnað með versnandi horfum ríkissjóðs.“

Í nýrri skýrslu frá matsfyrirtækinu Standard and Poor´s kemur fram að lánshæfismat Íslands sé breytt úr stöðugum horfunum í neikvæðar, en lánshæfiseinkunn ríkissjóðs er einungis einum flokki fyrir ofan svokallaðan ruslflokk. Helstu rök matsfyrirtækisins á þessum breytingum eru fyrirhugaðar niðurfærslur ríksstjórnarinnar á skuldum heimilanna sem eigi eftir að leiða til verri afkomu ríkissjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×