Lífið

Langjökull gleypti tökustað Frosts

Ingvar Þórðarson hjá tjöldunum sem fundust aftur, mörgum mánuðum eftir að tökum lauk.
Ingvar Þórðarson hjá tjöldunum sem fundust aftur, mörgum mánuðum eftir að tökum lauk.
„Þegar við vorum að „skjóta" í janúar hurfu búðirnar undir lokin. Við urðum að skilja eftir fimm tjöld og þau voru fyrst núna að koma undan vetrinum," segir Ingvar Þórðarson, einn af framleiðendum spennutryllisins Frosts sem verður frumsýndur í haust.

Ýmislegt gekk á við tökur á Frosti uppi á Langjökli í janúar. Meðal annars þurfti tökuliðið að skilja eftir fimm tjöld, sem hvert kostar 150 þúsund krónur, vegna veðurs. „Þegar við vorum búin og ætluðum að taka allt niður eftir tökur hurfu tjöldin. Jökullinn gleypti þau," segir Ingvar.

Hann er mjög ánægður með að þau séu núna komin í leitirnar, ekki bara vegna verðmætanna heldur líka vegna þess að mikilvægt er að skilja við náttúruna eins og hún var áður en tökurnar hófust. „Þetta snýst um að bera virðingu fyrir náttúrunni. Það er númer eitt, tvö og þrjú."

Hellir þar sem atriði í myndinni voru einnig tekin upp er aftur á móti horfinn og hefur ekki fundist aftur þrátt fyrir að sumarið sé komið. „Jökullinn gæti sýnt hann aftur eftir hundrað ár eða bara aldrei. Þessir jöklar eru magnað fyrirbæri. Það getur hvað sem er leynst á þeim." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×