Innlent

Landmannahellir fær síma- og netsamband

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þrátt fyrir alla tækni nútímans finnast enn svo afskekktir og innilokaðir staðir á Íslandi að þeir eru án símasambands. Meðal þeirra eru hálendisskálarnir við Landmannahelli en þangað fór leiðangur um helgina til að tengja þá við símkerfi landsins. 

Farið var inn á Landmannaleið norðan við Heklu og lagt af stað um hálfþrjúleytið um nótt, til að nýta kaldasta tíma sólarhringsins. Þá er frostið mest á hálendinu og farartæki sökkva síður í gegnum snjó og klaka.

Egill Aðalsteinsson, kvikmyndatökumaður Stöðvar 2, var með í för en farið var á tveimur öflugum jeppum Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Einnig komu sex vélsleðamenn með til halds og trausts og til að skjótast þangað sem jepparnir kæmust ekki en venjulega opnast Landmannaleið ekki fyrr en um miðjan júní.

Á Landmannaleið. Farið var á tveimur bílum Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Fyrir leiðangrinum stóðu félagið Hellismenn, sem rekur ferðaþjónustu við Landmannahelli, og Umhverfisstofnun, sem þar er með landverði á sumrin, en svæðið er innan friðlandsins að Fjallabaki. Skálarnir eru í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli og sumir enn hálfgrafnir í snjó. 

Eftir að slökkt var á gamla NMT-farsímakerfinu hefur skálaþyrpingin verið án símasambands og þurft að treysta á talstöðvar. Tilgangur leiðangursins var einmitt að bæta úr því. 

Aðeins þakið á þessum skálum stóð upp úr snjónum við Landmannahellli á sunnudag.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Svo innilokað er svæðið, umgirt fjöllum á allar hliðar, að hér þurfti sérsniðna lausn; grind sem rafeindavirkinn Sigurður Harðarson smíðaði fyrir örbylgjusendi, rafgeyma og sólarsellur. Búnaðurinn var svo settur upp á fjallinu Löngusátu, í sjónlínu við Landmannahelli. 

Í viðtali við Sigurð í fréttum Stöðvar 2 kom fram að svæðið sé í skugga við öll farsímakerfi. Búnaðurinn á fjallinu taki við gsm-merkinu og sendi það svo á örbylgju í skálana. 

„Svo eru þeir bara með venjulegan IP-síma á staðnum og geta verið í netsambandi, með posa og tölvur,“ segir Sigurður.

Örbylgjugrindinni komið upp á fjallinu Löngusátu. Skálaþyrpingin sést við fjallsræturnar ofarlega hægra megin.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Þar sem örbylgjusendirinn er á fjallstindi í 970 metra hæð, lengst inni á Torfajökulshálendinu, vaknar sú spurning hvort ekki sé hætta á að hann fjúki. 

„Nei, það er engin hætta á því. Við erum búnir að prófa þessa útfærslu á nokkrum stöðum. Þetta stendur bara á jörðinni og þetta er nærri hálft tonn. Þannig að það er ekki fræðilegur möguleiki á að þetta hreyfist.“

Gamli fjallaskálinn Eyjólfur getur nú komist í netsamband. Skálinn er nefndur eftir Eyjólfi Ágústssyni (1918-1997), bónda í Hvammi í Landssveit, sem var mikill fjallamaður, en húsið er í eigu fjölskyldunnar í Hvammi.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×