Innlent

Landlæknir setur spurningamerki við ákæru um manndráp

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Geir Gunnlaugsson, landlæknir, segir ákæru um manndráp af gáleysi vekja upp spurningar um hvernig eigi að taka á svona málum.
Geir Gunnlaugsson, landlæknir, segir ákæru um manndráp af gáleysi vekja upp spurningar um hvernig eigi að taka á svona málum.

Heilbrigðismál Geir Gunnlaugsson landlæknir setur spurningarmerki við að fara dómsleiðina þegar heilbrigðisstarfsmaður gerir mistök, en nú í vikunni var hjúkrunarfræðingur ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna mistaka í starfi.

„Ákæran er ákveðin stefnubreyting sem vekur okkur til umhugsunar um hvernig við viljum taka á þessum málum. Ég er ekki viss um að með dómsleiðinni aukist gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Geir.

Landlæknisembættið hefur undanfarið skoðað hvaða leiðir sé hægt að fara í svona málum.

„Við höfum til dæmis skoðað kerfi Norðmanna þar sem atvik í heilbrigðisþjónustu eru ekki tilkynnt til lögreglu nema grunur sé um glæpsamlegt athæfi,“ segir Geir.

Sigríður I. Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir nauðsynlegt að taka upp umræðu um dómsmál í heilbrigðiskerfinu.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, tekur undir orð Geirs. 

„Ég held að mörgum ói við þeirri stefnubreytingu sem þetta mál gæti haft í för með sér og það þarf að taka upp þessa umræðu,“ segir hún.

Mistökin sem um ræðir áttu sér stað á kvöldvakt sem hjúkrunarfræðingurinn vann í beinu framhaldi af dagvakt. Er honum meðal annars gefið að sök að hafa láðst að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hann tók hinn látna úr öndunarvél, með þeim afleiðingum að hann kafnaði. 

Ríkissaksóknari svaraði ekki fyrirspurnum um ákæruna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×