Viðskipti innlent

Lánamál Kaupþingsmanna: Margir eru búnir að semja

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri, flutti skuldir í einkahlutafélag árið 2006. Lán stjórnarformannsins Sigurðar Einarssonar voru í hans eigin nafni. Fréttablaðið/stefán
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri, flutti skuldir í einkahlutafélag árið 2006. Lán stjórnarformannsins Sigurðar Einarssonar voru í hans eigin nafni. Fréttablaðið/stefán

Búið er að gera upp í málum 24 fyrrverandi starfsmanna Kaupþings af þeim sextíu sem fengu lán til kaupa á hlutabréfum bankans fyrir fall hans haustið 2008. Mörg þeirra mála sem út af standa eru í samningaferli.

Slitastjórnin rifti um mitt síðasta ár ákvörðun stjórnar gamla Kaupþings, sem felldi niður persónulega ábyrgð starfsmanna bankans vegna hlutabréfalána. Heildarfjárhæð lána nam 32 milljörðum króna og voru 15 milljarðar með persónulegri ábyrgð. Slitastjórn Kaupþings telur að tíu fyrrverandi lykilstjórnendur bankans standi á bak við um 90 prósent lánanna.

Málin sem búið er að semja um varða starfsfólk bankans sem var persónulega ábyrgt fyrir lántökunni og þau tilvik sem lán höfðu verið færð inn í einkahlutafélög innan við sex mánuðum fyrir þrot bankans. Fólkinu var boðinn 35 prósenta afsláttur af kröfunni. Í sumum tilvikum var afslátturinn hærri. Stærstu málin sem varða háar lánveitingar til lykilstjórnenda Kaupþings eru fyrir dómstólum. Reiknað er með því að fyrstu dómarnir falli í mars eða apríl.- jab





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×